| Grétar Magnússon

Núna erum við tilbúnir fyrir Southampton

Jordan Henderson telur að góður 4-0 sigur á Dortmund fyrir fullu húsi á Anfield hafi verið hinn fullkomni undirbúningur fyrir komandi tímabil.





Lið Dortmund var sundurspilað á köflum í leiknum og áttu þeir fá svör við snörpum sóknum Liverpool manna. Daniel Sturridge hóf markaveisluna með góðu marki strax á 10. mínútu og Dejan Lovren skoraði svo í sínum fyrsta leik á Anfield með góðum skalla.  Coutinho skoraði svo gott mark í seinni hálfleik og það var svo Henderson sjálfur sem átti síðasta orðið er hann setti boltann í markið af markteig eftir góða sendingu frá Sturridge.

Alls hefur liðið þá spilað 8 leiki á undirbúningstímabilinu en athyglin beinist nú öll að Úrvalsdeildinni sem hefst um helgina en miðjumaðurinn sterki hefur ekki áhyggjur af ástandi liðsins.

,,Mér fannst við spila mjög vel allan leikinn," sagði Henderson í viðtali strax eftir leik. ,,Þetta var góð leið til að enda undirbúningstímabilið og vera klárir í næstu viku."

,,Allir eru ánægðir og vonandi getum við haldið þessu áfram gegn Southampton. Flestir leikir okkar á undirbúningstímabilinu hafa verið gegn góðum liðum, liðum sem eru í Meistaradeildinni eða vön því að vera þar. Núna erum við tilbúnir fyrir alvöruna. Við erum sífellt að bæta okkur. Höldum áfram að leggja hart að okkur og vinna að mismunandi hlutum."

,,Við erum með ungt lið sem er að þróast í rétta átt og við erum einnig með þónokkra reynslu þrátt fyrir aldurinn. Vonandi reynist það okkur vel á komandi tímabili."

Eftir að hafa náð öðru sæti í deildinni á síðasta tímabili búa leikmenn sig nú undir að gera aðra árás að Úrvalsdeildartitlinum og að ná góðum árangri í Meistaradeildinni.  Ekki má gleyma Deildarbikar og FA Bikarnum en hvað telur Henderson að séu helstu áherslupunktar liðsins fyrir tímabilið ?

,,Að komast eins langt og við getum í öllum keppnum - Úrvalsdeild, Meistaradeild, FA Bikarnum og Deildarbikar," var einfaldlega svarið. ,,Við viljum bara gera eins vel og við getum í öllum keppnum sem við tökum þátt í."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan