| Sf. Gutt

Stórsigur á lokaæfingunni

Lokaæfing Liverpool fyrir nýju leiktíðina gæti ekki hafa gengið betur. Liverpool vann stórsigur 4:0 á Borussia Dortmund á Anfield. Liverpool lék mjög vel gegn þýska liðinu og sigurinn hefði getað verið stærri.

Brendan Rodgers stillti upp líklega því sterkasta liði sem völ var á. Þeir Dejan Lovren og Javier Manquillo klæddust Liverpool búningnum í fyrsta sinn. Annar nýliði Emre Can fékk líka sæti í byrjunarliðinu.

Borussia Dortmund var ekki alveg með sinn sterkasta hóp en samt voru margir góðir leikmenn í liði þeirra. Nuri Sahin, sem var lánsmaður hjá Liverpool, gat ekki verið með vegna meiðsla ef rétt er vitað. 

Stuðningsmenn beggja liðanna sungu You´ll Never Walk Alone fyrir leikinn en þjóðsöngur Liverpool er líka brúkaður í Dortmund. Mögnuð stund í Musterinu og mikil stemmning. Jurgen Klopp, framkvæmdastjóri Dortmund, snerti meira segja This is Anfield skiltið þegar hann gekk til leiks! 

Liverpool hóf leikinn prýðilega og boltinn lá í marki þýska liðsins eftir 10 mínútur. Dejan Lovren sendi þá boltann út úr vörninni, Philippe Coutinho rétt snerti boltann en nóg til þess að senda Daniel Sturridge í gegn. Hann lék inn í vítateiginn hægra megin og sendi boltann af öryggi neðst í fjærhornið. Mögnuð afgreiðsla hjá Daniel en sendingin hjá Philippe var alveg frábær. Eitt af mörgum snilldarverkum hans í dag!

Fjórum mínútum síðar var boltinn aftur kominn í mark Dortmund. Steven Gerrard tók horn frá vinstri og Dejan Lovren stangaði boltann í markið. Vel gert hjá Króatanum og ekki ósvipað mark og þegar hann skoraði á móti Liverpool í sama mark á síðasta tímabili!

Liverpool var miklu betra liðið og Dortmund virtist ekki vera vel stemmt en sótti þó aðeins í sig veðrið þegar leið að leikhléi. Liverpool hefði getað verið komið með fleiri mörk þegar þýska liðið fékk loks gott færi á 38. mínútu. Adrian Ramos fékk þá upplagt færi við vítateiginn en skot hans fór himinhátt upp í Kop stúkuna. Á síðustu mínútu hálfleiksins fékk Liverpool aukaspyrnu við vítateiginn sem Steven Gerrard tók en Mitchell Langerak gerði vel í að slá boltann yfir.

Liverpool gerði út um leikinn eftir fjórar mínútur í síðari hálfleik. Einn leikmaður gestanna tók þá upp á því að senda furðulega þversendingu rétt fyrir framan vítateiginn. Raheem náði boltanum og sendi hann á Philippe sem skoraði örugglega við vinstra markteigshornið. 

Eftir þetta gerðist svo sem ekki mikið til leiksloka en Liverpool átti oft hraðar og skemmtilegar sóknir. Ein slík gaf af sér mark á 61. mínútu. Snilldarsamspil endaði með því að boltinn barst yfir að endamörkum hægra megin. Kannski var boltinn meira að segja farinn aftur fyrir en Daniel náði honum og sendi á Jordan Henderson sem skoraði af stuttu færi. 

Stórsigur Liverpool og hann var löngu tryggður þegar lokaflautið gall. Það er ekki gott að segja hversu marktækur leikur Liverpool var miðað við þá hörðu baráttu sem framundan er á komandi leiktíð. En liðið lék vel og fremstu menn voru magnaðir. Nýliðarnir í vörninni Dejan og Javier geta vel við unað. Stórfín lokaæfing og vonandi verður haldið áfram á sömu bruat eftir viku þegar alvaran hefst.         

Liverpool: Mignolet; Manquillo (Kelly 85. mín.), Johnson (Enrique 61. mín.), Skrtel, Lovren; Gerrard, Can (Leiva 46. mín.), Henderson (Allen 80. mín.), Sterling, Coutinho (Ibe 72. mín.) og Sturridge (Lambert 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, Sakho, Coates og Suso

Mörk Liverpool: Daniel Sturridge (10. mín.), Dejan Lovren (14. mín.), Philippe Coutinho (49. mín) og Jordan Henderson (61. mín.).

Borussia Dortmund: Borussia Dortmund: Langerak; Piszczek (Großkreutz 58. mín.), Sokratis (Knystock 81. mín.), Ginter, Schmelzer (Sarr 81. mín.); Kehl (Bender 46. mín.), Kirch (Immobile 46. mín.), Mkhitaryan (Ji 64. mín.), Aubameyang (Bandowski 76. mín.), Jojic (Amini 77. mín.) og Ramos (Hofmann 46. mín.). Ónotaðir varamenn: Bonmann og Subotic. 

Áhorfendur á Anfield Road: 43.000.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan