| Grétar Magnússon

Góður sigur gegn AC Milan

Góður 2-0 sigur vannst á ítalska liðinu AC Milan í síðasta leik riðilsins í International Champions Cup mótinu í Bandaríkjunum.


Byrjunarlið Brendan Rodgers var þannig skipað:  Mignolet, Kelly, Toure, Coates, Robinson, Allen, Lucas, Henderson, Ibe, Sterling, Lambert. Fyrir leikinn var staðfest að Liverpool væru sigurvegarar riðilsins eftir að Olympiakos vann Manchester City í vítaspyrnukeppni fyrr um daginn. Eins og áður hefur komið fram á þessum vef er mótherjinn Manchester United og er því varla hægt að segja að um æfingaleik sé að ræða þegar bikar er í húfi á undirbúningstímabilinu.

Leikmenn Liverpool voru svo sterkari aðilinn í byrjun leiks án þess þó að skapa sér hættuleg færi eða ógna mikið vörn Milan manna. En á 17. mínútu kom fyrsta markið. Joe Allen vann boltann af Michael Essien með góðri pressu hátt uppi á vellinum. Hann skaut að marki en boltinn fór í stöngina, Raheem Sterling var fyrstur á vettvang en Abbiati í markinu varði skot hans, boltinn barst þá aftur til Allen sem átti nokkuð þægilegt verk fyrir höndum og setti hann boltann í markið.

Eftir þetta lifnaði aðeins yfir leikmönnum Milan en áður en þeir létu að sér kveða gerði Jordan Henderson sig líklegan þegar aukaspyrna var dæmd á hættulegum stað en skot hans fór beint í varnarvegginn. Skömmu síðar gerði Coates vel í vörninni þegar hann komst fyrir skot M'Baye Niang og Toure gerði enn betur þegar hann stöðvaði Pazzini en Ítalinn var þá að komast í fínt færi. Eftir um hálftíma leik var svo dæmd vítaspyrna á Adil Rami þegar hann felldi Sterling inní vítateig. Á punktinn fór Rickie Lambert en Abbiati gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu hans. Lambert er gríðarlega örugg vítaskytta en þarna hefur hann líklega verið aðeins of stressaður að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Eftir þetta gerðist ekki mikið markvert fram að hálfleik, Mignolet þurfti þó reyndar að verja eitt skot í markinu en ekki mikil hætta var á ferðum. Staðan því 1-0 í hálfleik.


Rodgers gerði tvær skiptingar í hálfleik, inn komu þeir Conor Coady og Suso fyrir Henderson og Sterling. Milan menn kynntu svo til leiks Mario Balotelli og hann var ekki lengi að reyna að setja mark sitt á leikinn er hann þrumaði að marki af löngu færi beint úr aukaspyrnu. Mignolet þurfti ekki að hafa áhyggjur því skotið hitti ekki markið.

Eftir klukkutíma leik gerði Rodgers svo átta breytingar og þar með var Mignolet sá eini sem eftir var af byrjunarliðinu. Fyrirliðinn Steven Gerrard reyndi fyrir sér með skoti af löngu færi úr aukaspyrnu en boltinn fór framhjá. Mignolet gerði svo vel er hann varði skot frá Balotelli úr góðu færi.

Seinna mark leiksins leit svo dagsins ljós á 89. mínútu. Coutinho fékk boltann úti vinstra megin, sendi boltann til hægri þar sem Suso kom aðvífandi og skaut hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Vel gert hjá Spánverjanum og 2-0 sigur staðreynd.

Menn geta svo farið að láta sig hlakka til leiksins við Manchester United en hann hefst á miðnætti aðfaranætur 4. ágúst. Leikið er á Sun Life leikvanginum í Miami. Ljóst er að Daniel Sturridge verður ekki með en hann er farinn aftur til Liverpool til að ná sér góðum af smávægilegum meiðslum sem hrjá hann. Hann verður þó klár í slaginn gegn Dortmund í síðasta æfingaleik liðsins á þessu undirbúningstímabili.

Liverpool: Mignolet, Kelly (Johnson, 60. mín.), Toure (Skrtel 60. mín.), Coates (Sakho 60. mín.), Robinson (Enrique 60. mín.), Lucas (Gerrard 60. mín.), Henderson (Coady 46. mín.), Allen (Can 60. mín.), Lambert (Peterson 60. mín.), Ibe (Coutinho 60. mín.), Sterling (Suso 46. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones.

Mörk Liverpool: Joe Allen (17. mín.) og Suso (89. mín.).

AC Milan: Abbiati, Abate, Bonera, Rami, De Sciglio, Essien, Muntari, Saponara, Niang, Pazzini, El Shaarawy.

Áhorfendur á Bank of America Stadium: 69.000.

Hér má sjá myndir úr leiknum af lfctour.com.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan