| Sf. Gutt

Fer Daniel Agger í sumar?

Staða Daniel Agger hjá Liverpool virðist í nokkurri óvissu. Sumir telja allt stefna í að varafyrirliðinn fari frá Liverpool áður en þetta sumar er úti. Á dögunum birtu nokkrir fjölmiðlar fréttir þess efnis að Barcelona vildi kaupa Danann. Átti kaupverð að vera 12 milljónir sterlingspunda. Reyndar hefur líka verið talið að Rafael Benítez hafi áhuga á að fá fyrirliða danska landsliðsins til Napólí. 



Daniel ýtti aðeins undir þessar sögusagnir með því að segja, í fjölmiðlum heima í Danmörku, að síðasta keppnistímabil hefði verið óásættanlegt frá sjónarhóli sínum því hann hefði ekki spilað nógu mikið. Daniel var tekið sem hetju hjá gamla félaginu sínu Bröndby um daginn þegar Liverpool lék við liðið. Eftir leikinn sagðist hann vel getað hugsað sér að enda feril sinn hjá Bröndby en það er varla komið að því strax.



Daniel hefur ekkert spilað í síðustu tveimur æfingaleikjum Liverpool. Hvort það er einhver vísbending um framtíð hans skal látið ósagt en Liverpool hefur auðvitað bætt miðverði í hópinn. Dejan Lovren var örugglega ekki keyptur til að að vera varamaður.



Daniel Agger kom til Liverpool 2006 og er þriðji, á eftir Steven Gerrard og Jose Reina, í röð þeirra leikmanna sem lengst hafa spilað með liðinu.   

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan