| Grétar Magnússon

Divock Origi orðinn leikmaður Liverpool

Í dag var tilkynnt um nýjustu kaupin er hinn 19 ára gamli belgíski sóknarmaður, Divock Origi gekk til liðs við félagið. Hann kemur frá Lille í Frakklandi og verður lánaður aftur til liðsins allt næsta tímabil.

Útsendarar Liverpool hafa fylgst með Origi síðan hann var að spila með belgíska U-15 ára landsliðinu og mörg félög á Englandi og annarsstaðar í Evrópu höfðu augastað á honum.

Þegar tilkynnt var um kaupin hafði Origi þetta að segja: ,,Ég er mjög mjög ánægður með að félag jafn stórt og Liverpool hafi sýnt mér áhuga. Ég er mjög spenntur. Ég veit að þetta er frábært félag með mikla sögu, einstaka stuðningsmenn og mikið af frábærum leikmönnum. Fyrir mér er Liverpool eitt besta félag heims og ég er mjög spenntur fyrir því að vera hluti af sögu félagsins."

Origi hóf ferilinn hjá belgíska félaginu Genk og gekk svo til liðs við Lille árið 2010. Hann skoraði í sínum fyrsta leik fyrir aðallið félagsins í febrúar 2013 og hefur síðan þá skorað fimm mörk í viðbót fyrir liðið.

Hann var svo með Belgum á HM fyrr í sumar og vakti þar mikla athygli, m.a. skoraði hann sigurmarkið seint í leik í riðlakeppninni þegar Belgar mættu Rússum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan