| Heimir Eyvindarson

Rodgers ánægður með hópinn

Brendan Rodgers er ánægður með leikmannahóp Liverpool, en útilokar ekki frekari viðbætur. 

Það sem af er sumri hefur Liverpool fest kaup á Rickie Lambert, Adam Lallana, Emre Can og Lazar Markovic, auk þess sem Loic Remy bætist líklega formlega við hópinn fljótlega. Brendan Rodgers segist ánægður með nýju leikmennina, þeir séu góð viðbót við sterkan hóp. Hann útilokar ekki frekari kaup, en segist ekki vera að flýta sér að eyða peningunum sem fengust fyrir Luis Suarez.

„Við getum eytt meiri peningum, en við munum ekki eyða neinu ef réttu leikmennirnir eru ekki í boði. Við erum tilbúnir til þess að kaupa rétta leikmenn fyrir rétt verð. Við ætlum okkur ekki að eyða peningunum bara af því að við getum það."

„Auðvitað hugsar fólk út í hvað þessi eða hinn leikmaðurinn kostar, en það er í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Allir leikmennirnir sem við höfum keypt í sumar eru leikmenn sem við vildum fá til okkar. Verð er alls ekki eini mælikvarðinn á gæði. Það er svo margt sem spilar inn í, leikmenn þurfa að passa inn í leikskipulagið, hafa rétta hugarfarið og svo framvegis."

„Ég er mjög ánægður með þá leikmenn sem við höfum fengið til þessa. Ég tel að þeir smellpassi inn í okkar plön. Sjáið bara Adam Lallana, hann er gríðarlega teknískur og aggressívur. Sjáið Emre Can. Geysisterkur og fyrirferðarmikill á vellinum. Mikið leiðtogaefni. Hann minnir á ungan Stevie G. þegar hann geysist fram völlinn."



„Svo erum við með leikmann eins og Coutinho, sem togar í strengina eins og færasti brúðustjórnandi. Það er unun að fylgjast með því hvað hann hefur gott auga fyrir spili og hversu frábær leikstjórnandi hann er. Hann er leikmaðurinn sem spilið fer í gegnum. Ótrúlega þroskaður leikmaður miðað við ungan aldur."

„Það eru gríðargóðir leikmenn í okkar hópi og ég hef fulla trú á því að næsta leiktíð verði mjög spennandi og skemmtileg fyrir okkur öll. Það er mjög mikil sóknargeta í þessu liði, gleymum ekki hvað við höfum mikinn sprengikraft í Sterling og Sturridge, við verðum mjög hættulegir fram á við." 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan