| Sf. Gutt

Daniel Agger heima á nýjan leik

Daniel Agger sneri aftur á heimaslóðir í gær þegar Liverpool mætti Bröndby í Danmörku. Hann hóf ferilinn hjá félaginu og hefur sterkar taugar til þess.
 

Daniel hóf að æfa með Bröndby 12 ára gamall og varð fljótlega einn allra efnilegasti leikmaður félagsins og reyndar í allri Danmörku. Hann var til dæmis kjörinn efnilegasti leikmaður Dana þrjú ár í röð frá 2004 til 2006. Daniel var orðinn fastamaður í Bröndby innan við tvítugt og varð Danmerkurmeistari og bikarmeistari á leiktíðinni 2004/05. Daniel fór fljótlega að vekja athygli utan heimalandsins og svo fór að Liverpool keypti hann í janúar 2006.
 

Daniel hefur átt býsna góðan feril hjá Liverpol en þó varla jafn góðan og hefði getað verið því meiðsli hafa löngum gert þessum snjalla miðverði erfitt fyrir og sett strik í reikninga. Það segir sína sögu að Daniel hefur aðeins leikið rúmlega 200 leiki með Liverpool á þeim rúmu átta árum sem hann hefur verið hjá Liverpool.  Alls eru leikirnir nú 232 og mörkin 14. Daniel hefur verið varafyrirliði Liverpool síðasta árið.

Daniel hefur lengi átt fast sæti í danska landsliðinu en hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2005. Hann hefur verið fyrirliði danska landsliðsins síðustu árin. Daniel hefur tvívegis verið kjörinn Knattspyrnumaður árins í Danmörku. Fyrst árið 2007 og svo 2012.

Daniel hefur alltaf haft sterkar taugar til Bröndby og á síðasta ári afþakkaði hann greiðslu sem félagið var dæmt til að greiða honum og fleiri leikmönnum. Daniel sagði að með þessu vildi hann leggja sitt af mörkum til að hjálpa gamla félaginu sínu sem ætti í fjárhagsvanda og tók ekki við peningunum. Féll þessi ákvörðun Daniel í góðan jarðveg hjá stuðningsmönnum Bröndby. Um leið hvatti Daniel aðra leikmenn að gera slíkt hið sama og hann.

Daniel var búinn að segjast hlakka mikið til að koma aftur á fornar slóðir. Það kom líka vel í ljós í gær að kappinn er í hávegum hafður hjá gamla félaginu sínu. Honum var gríðarlega vel tekið og eftir leikinn sagði hann ekki útilokað að hann muni einhvern tíma í framtíðinni spila aftur fyrir uppeldisfélagið sitt.

Leikurinn í gær var hluti af kaupsamninginum sem gerður var þegar Liverpool keypti Daniel Agger frá Bröndby á sínum tíma. Í samningnum var tekið fram að Liverpool skyldi koma til Danmerkur og spila við Bröndby. Það var þó ekki fyrr en núna í ár að af leiknum varð en betra er seint en aldrei. Það var líka vel við hæfi að spila núna því Bröndby fagnar 50 ára afmæli sínu á þessu ári og Daniel er meðal fræknari sona félagsins. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan