| Heimir Eyvindarson

Sterling er eins og litli bróðir

Daniel Sturridge segir að samband hans og Raheem Sterling sé afar gott og náið. Hann segist líta á Sterling sem nokkurskonar litla bróður.

Daniel Sturridge er í fríi á Jamaica þessa dagana, eins og fylgjendur hans á samfélagsmiðlum hafa líklega tekið eftir. Í samtali við útvarpsstöð á Jamaica fór Sturridge yfir málin hjá Liverpool, núna þegar skærasta stjarna liðsins er horfin á braut. 

,,Það er ljóst að það verður erfitt að fylla skarð Suarez, en þegar ein stjarna fer getur önnur fæðst. Hver veit nema það verði Raheem. Hann er ótrúlega hæfileikaríkur og gleymum því ekki að hann er aðeins 19 ára gamall. Síðasta tímabil var bara lítið sýnishorn af því sem hann getur afrekað í framtíðinni, ef honum gengur vel að fóta sig." 

,,Ég reyni að vera honum innan handar með allt sem ég get. Þegar ég var að alast upp í boltanum átti ég engan að sem hjálpaði mér virkilega, þessvegna veit ég að það er mikils virði fyrir hann að geta leitað til mín. Ég reyni eftir fremsta megni að vera "stóri bróðir" og hjálpa honum, bæði á fótboltavellinum og í einkalífinu."

,,Raheem er frábær leikmaður og getur hjálpað okkur að fylla skarðið sem Luis skilur óneitanlega eftir sig. Það eru auðvitað margir leikmenn sem geta stigið fram og lagt sitt af mörkum og kannski verður einhver annar "stjarnan", en fyrir mér snýst þetta ekki endilega um það hvort einhver ný hetja fæðist. Fyrst og fremst verða allir í liðinu að stíga upp og standa sig. Fótbolti er jú fyrst og fremst liðsíþrótt. Það er enginn einn leikmaður stærri en heildin, það vitum við vel, en ég bind miklar vonir við Raheem."

Nú þegar Iago Aspas er kominn til Sevilla losnar númerið 9, sem er sveipað nokkrum dýrðarljóma í sögu Liverpool. Þá er hið goðsagnakennda númer 7 líka á lausu eftir að Suarez hvarf á braut. Aðspurður hvort hann muni sækjast eftir því að fá sjöuna eða níuna á bakið segist Sturridge ekki hafa velt því sérstaklega fyrir sér.

,,Það skiptir mig ekki miklu máli hvaða númer ég ber á bakinu. Ég er ágætlega sáttur við að vera númer 15, það eru 15 stafir í nafninu mínu þannig að það passar ágætlega við mig. Þegar ég var yngri vildi eg reyndar alltaf vera númer 10 og svo númer 8, en þau númer eru ekki á lausu hjá Liverpool. Eftir því sem maður eldist veltir maður þessum hlutum minna fyrir sér."

,,Ég geri mér grein fyrir því að ég er væntanlega í þeirri stöðu hjá Liverpool að ég geti farið fram á að bera eitthvað ákveðið númer og númer 9 er auðvitað upplagt númer fyrir striker, en ég er ekkert viss um að ég muni sækjast eftir því eða þiggja það verði mér boðið það. En maður veit aldrei."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan