| Grétar Magnússon

Rickie Lambert mættur á æfingar

Rickie Lambert er mættur á æfingar hjá Liverpool. Það er svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann byrjaði að æfa fyrr en áætlað var, hér útskýrir hann af hverju.


Sóknarmaðurinn mætti viku fyrr á sína fyrstu æfingu en þeir leikmenn Englendinga sem voru á HM í Brasilíu eiga ekki að mæta fyrr en á mánudaginn í næstu viku til æfinga á ný.  Lambert er hinsvegar staðráðinn í því að vera í sínu besta formi þegar deildin hefst hjá Liverpool þann 17. ágúst gegn gömlu félögum hans í Southampton.

Hann sagði í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins: ,,Sennilega í fyrsta sinn á ferlinum hlakka ég til undirbúningstímabilsins - og það er ekki slæmt fyrir 32 ára gamlan mann að segja það !"

,,Ég var æstur í að byrja að æfa með strákunum og spila knattspyrnu.  Þetta er gott. Nú er annar dagur minn og ég nýt þess að vera hér, þetta er erfitt en mér líður vel.  Þessi snemmbúna byrjun er eitthvað sem ég verð að gera; þetta er í raun ekki lengur valmöguleiki fyrir mig. Ég þekki líkama minn og veit hvað ég þarf að gera, til að komast í sama form og allir aðrir þarf ég yfirleitt að gera aðeins meira en næsti maður."

,,Það var alltaf ætlun mín að koma snemma til æfinga, hvort sem ég yrði hjá Southampton eða Liverpool - en augljóslega er ég spenntur fyrir því að komast af stað og gera vel hjá Liverpool. Mér fannst það gríðarleag mikilvægt að koma fyrr til æfinga og sjá til þess að ég verði í eins góðu ásigkomulagi og hægt er þegar tímabilið byrjar, það er ástæðan fyrir öllu þessu puði hér núna."

Gleði Lamberts var augljós þegar hann skrifaði undir samning við félagið fyrr í sumar en eins og allir vita er hann mikill stuðningsmaður félagsins.  Nú, nokkrum vikum síðar er spurt að því hvort hann sé búinn að átta sig á að draumurinn hefur ræst.

,,Já ég hef gert það," svarar hann. ,,Auðvitað var þetta algjör draumur, en ég hef trú á því að ég eigi að vera hér og það eru hlutir sem mig langar til að sýna og sanna. Þetta snýst allt um að koma sér í stand fyrir fyrsta leik tímabilsins, en ég verð búinn að æfa hér á Melwood í viku áður en ég get farið að láta mig hlakka til ferðarinnar til Ameríku. Hvað get ég eiginlega sagt ?"

,,Þetta er lífsstíll sem hvern einasta dreng dreymir um - og ég er hjá Liverpool. Það er í raun almenn skynsemi í þeirri hugsun að ég skuli hafa snúið snemma til baka - það var alltaf mín hugsun."

Utan vallar staðfestir Lambert að hann og fjölskylda sín sé búin að koma sér vel fyrir á Merseyside eftir nokkur ár á suðurströndinni.

Hann sagði: ,,Við aðlögumst mjög vel. Ray og Jane (starfsmenn Liverpool FC) ásamt leikmönnunum hafa látið mér líða vel frá byrjun. Ég er auðvitað heimamaður en ég hef samt ekki búið hér í nokkur ár. Konan mín og börnin eru búin að koma sér vel fyrir á stuttum tíma - ég verð að hrósa öllum þeim sem hafa hjálpað til með það. Kærar þakkir til allra. Að koma fjölskyldunni vel fyrir sem og mér sjálfum er það mikilvægasta. Nú er allt komið í fastar skorður þannig að ég get slakað á og einbeitt mér að fótboltanum."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan