| Heimir Eyvindarson

Vistaskipti Lazar Markovic staðfest

Rétt í þessu sendi portúgalska félagið Benfica frá sér staðfestingu þess efnis að Serbinn Lazar Markovic væri orðinn leikmaður Liverpool. Sagt er í tilkynningu Benfica að Liverpool greiði nálægt 20 milljónum punda fyrir kappann.



Félagaskipti Markovic til Liverpool hafa verið í bígerð í nokkurn tíma og menn hafa beðið í nokkra daga eftir formlegri staðfestingu. 

Markovic er tvítugur að aldri, fæddur 2. mars 1994. Hann hefur spilað sem framherji, framliggjandi miðjumaður eða kantmaður. Hann hefur verið á mála hjá Benfica í eitt ár, en hann kom til liðsins frá Partizan í Belgrad. Markovic lék 26 leiki með Benfica á síðustu leiktíð og skoraði fimm mörk. Benfica átti frábæra leiktíð og vann þrefalt í Portúgal auk þess að komast í úrslit í Evrópudeildinni þar sem liðið tapaði í vítakeppni fyrir Sevilla. Markovic var í leikbanni í úrslitaleiknum.


Lazar Markovic lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Serba fyrir rúmum tveimur árum. Alls hefur hann leikið 12 landsleiki fyrir Serbíu og skorað í þeim tvö mörk.

Serbinn segist mjög hamingjusamur með að vera orðinn leikmaður Liverpool. ,,Ég er mjög hamingjusamur með að vera kominn til svona magnaðs félags. Ég vona að ég nái að uppfylla væntingar stuðningsmanna, þjálfara, leikmanna og allra þeirra sem tengjast félaginu."

Liverpool klúbburinn á Íslandi býður Lazar Markovic hjartanlega velkominn til besta félagsliðs í heimi.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan