| Sf. Gutt

Brendan stoltur af sínum mönnum!

Brendan Rodgers var mjög stoltur af leikmönnum sínum í lok leiktíðarinnar. Hann segist viss um að þeir eigi eftir að taka meiri framförum og liðið verði betra á næsta keppnistímabili. Brendan hafði meðal annars þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.com eftir síðustu umferð deildarinnar.

,,Mér er efst í huga núna hversu stoltur ég er af leikmönnunum. Leikmennirnir hafa sýnt hversu ótrúlega góðir þeir eru og eins sýndu þeir mikinn stöðugleika með því að enda leiktíðina á að vinna 12 af síðustu 14 leikjunum, gera eitt jafntefli og tapa einum. Við hefðum frekar viljað hafa endað í efsta sætinu en með því að vera í öðru sæti á eftir Manchester City höfum við sýnt miklar framfarir á leiktíðinni. Þetta réðst ekki í síðustu leikjunum. Leikirnir eru 38 og besta liðið endar efst eftir 38 leiki. Allir horfa þó á síðustu hindranirnar sem voru auðvitað erfiðar."

,,Þetta var frábært keppnistímabil. Liðið fór vaxandi og þróaðist mikið. Það hefur verið ótrúlegt að sjá stuðningsmennina, kraft félagsins og þeirrar stofnunnar sem Liverpool vissulega er. Við náðum að láta stuðningsmennina dreyma og það er sannarlega okkar hlutverk. Það besta er að við eigum eftir að bæta okkur og við verðum betri á næsta keppnistímabili. Við erum með ungan hóp og eigum eftir að bæta við leikmönnum. Við verðum tilbúnir í slaginn á nýjan leik og núna höfum við öðlast tiltrú á okkur."

Brendan Rodgers var sannarlega ekki bugaður þrátt fyrir vonbrigðin með að enda í öðru sæti í deildinni. Nú er að sjá hvort liðið heldur áfram á sömu braut á næsta keppnistímabili.





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan