| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v Chelsea

Liverpool og Chelsea hafa oft leitt saman hesta sína síðasta áratuginn eða svo og ósjaldan hefur verið mikið í húfi. Nú í byrjun sumars 2014 er það sjálfur Englandsmeistaratitillinn! Liverpool leiðir deildina en Chelsea er skammt að baki og á líka möguleika á titlinum. Síðasti leikur Liverpool á Anfield Road var á móti Manchester City á pálmasunnudag og þá var, líkt og nú, allt undir. Liverpool vann 3:2 og tók risastórt skref í átt að Englandsmeistaratitlinum. Ef Liverpool næði að vinna Chelsea nú í byrjun sumars myndi það vera álíka risaskref. Sigur þýddi að Liverpool myndi skilja Chelsea eftir í kapphlaupinu um Englandsmeistaratitilinn og Manchester City yrði þá eina liðið sem gæti náð Rauða hernum. Þessi leikur er því með ólíkindum mikilvægur og mikilvægi hans er síst minna en leiksins við City sem þó var talinn mikilvægasti deildarleikur Liverpool í rúmlega 20 ár!


Reiknimeistarar hafa fundið út að Liverpool þarf sjö stig af þeim níu sem liðið getur náð til að vinna Englandsmeistarattilinn. Kannski duga færri en það fer allt eftir því hversu mörg stig Chelsea og Manchester City afla úr sínum leikjum. Liverpool og Manchester City geta sett allt sitt í baráttuna um deildartitilinn en Chelsea hefur í önnur horn að líta. Liðið er í miðri rimmu sinni við Atletico Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Fyrri leik liðanna í Madríd lauk án marka og því á Chelsea alla möguleika á að komast í úrslit og vinna Evrópubikarinn. Það mun því reyna mikið á leikmannahóp Chelsea þessa vikuna. Vonandi koma annir Chelsea Liverpool eitthvað til góða á morgun!

Það vantar í leikmannahóp Chelsea vegna meiðsla og leikbanna en það skiptir ekki öllu því leikmannahópur Chelsea er mun stærri en Liverpool og gríðarleg reynsla leikmanna liðsins í stórleikjum í gegnum árin mun skipta miklu í þeirri háspennu sem verður á Anfield. Hjá Liverpool er Jordan Henderson ennþá í leikbanni en Daniel Sturridge er á batavegi eftir meiðsli. Hann gæti hugsanlega mætt sínum gömlu félögum. Victor Moses má ekki spila með Liverpool þar sem hann er í láni frá Chelsea. En eins og í öllum öðrum leikjum þá eru það leikmennirnir sem spila sem eru mikilvægastir. Bæði Brendan Rodgers og Jose Mourinho vita það manna best.

Mörgum hefur verið hugsað til undanúrslita Meistaradeildarinnar vorið 2005 þegar Liverpool vann Chelsea 1:0 með frægu marki Luis Garcia og komst í úrslit. Þá þóttu áhorfendur á Anfield fara langt með að vinna leikinn og stemmningin verður örugglega álíka þegar liðin mætast núna. Ég get vitnað um það að andrúmsloftið var rafmagnað þegar Manchester City kom í heimsókn fyrir páskana og áhorfendur lögðu sig alla fram við að hjálpa liðinu sínu. Það verða tólf í liði Liverpool líka að þessu sinni! Reyndar skiptir ekki máli hvort stuðningsmenn Liverpool verða uppi í stúku eða annars staðar. Ég var í Liverpool yfir páskana og spennan í borginni er gríðarlega mikil og hefur farið vaxandi síðustu vikurnar. Hver einasti stuðningsmaður Liverpool er með hugann við liðið sitt og góðir straumar streyma að úr öllum áttum. Ekki mun af veita á þessum erfiða lokaspretti þegar allt verður að ganga upp og ekkert má fara úrskeiðis.  

Draumur stuðningsmanna Liverpool um Englandsmeistaratitilinn er enn á lífi og og ég spái því að hann færst enn nær því að rætast eftir 2:1 sigur Liverpool á morgun. Sömu úrslit sömu liða á sama stað vorið 1966 færðu Liverpool Englandsmeistaratitilinn! Roger Hunt skoraði þá bæði mörk Liverpool. Luis Suarez mun ganga öðruvísi berkserksgang en í leik liðanna á síðustu leiktíð þegar stóra bitmálið tók alla athygli eftir 2:2 jafntefli í endurkomuleik Rafael Benítez. Núna skorar Luis tvívegis og Liverpool færist nær titlinum langþráða!

YNWA

Hér má horfa á upphitunarmyndband af Liverpoolfc.com.           

  

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan