| Heimir Eyvindarson

Jordan fer með í alla bannleikina

Jordan Henderson mun ferðast með leikmannahópi Liverpool í næstu þrjá leiki, þrátt fyrir að mega ekki taka þátt í þeim.

Henderson fékk að líta rauða spjaldið á lokasekúndum sigurleiksins gegn Manchester City á sunnudaginn var og þarf fyrir vikið að taka út þriggja leikja bann. Það er auðvitað mikil blóðtaka fyrir liðið, enda hefur Henderson verið afar mikilvægur hlekkur í Liverpool liðinu í vetur. Brendan Rodgers vill þó ekki að leikmaðurinn sitji auðum höndum meðan hann tekur út bannið.

„Það er þyngra en tárum taki að Jordan þurfi að sitja uppi í stúku í næstu leikjum. Hann hefur átt frábært tímabil", segir Rodgers í viðtali við Daily Mirror.

„Við verðum því miður að láta okkur hafa það að vera án hans inni á vellinum í næstu þremur leikjum, en við megum alls ekki við því að missa hans góða karakter úr hópnum. Þessvegna mun hann ferðast með okkur og taka þátt í öllum undirbúningi fyrir leikina, rétt eins og hann væri að fara að spila."

„Jordan er mikilvægur hluti af liðinu. Þessvegna vil ég hafa hann með, þrátt fyrir að hann sé í banni. Ég hef sagt honum að þótt að hann geti ekki haft bein áhrif á það sem gerist úti á vellinum, geti hann látið til sín taka í búningsklefanum, í rútunni og á hótelinu. Rétt eins og hann er vanur að gera."

Rodgers er raunar á því að rauða spjaldið sem Henderson fékk gegn City hafi verið heldur strangur dómur.

„Jordan er strangheiðarlegur leikmaður og hann var í raun fyrstur í boltann, en við höfum farið yfir ástæðuna fyrir því að hann fékk rautt og sættum okkur við það. Þetta var óheppni."

Henderson tekur út fyrsta bannleikinn þegar Liverpool mætir Norwich á Carrow Road á páskadag. Liverpool mun væntanlega einnig þurfa að leika án Daniel Sturridge í þeim leik, en hann er lítillega meiddur. Rodgers hefur ekki stórar áhyggjur af stöðunni á hópnum.

„Þeir leikmenn sem koma inn fyrir Daniel og Jordan munu standa sig með prýði. Þeir eru undirbúnir undir það að þurfa að stíga upp og standa undir væntingum. Það verður ekki vandamál. Ég hef alltaf sagt að erfiðasti hluti míns starfs sé að velja liðið. Þegar maður er með 21 leikmann í hóp sem allir leggja sig 100% fram á hverri einustu æfingu og eru allir atvinnumenn fram í fingurgóma þá er erfitt að velja 18 manna hóp, hvað þá 11 manna byrjunarlið."

„Ég hef alltaf hamrað á því að ástæðan fyrir því að allir í hópnum þurfa að vera á tánum - alltaf - sé einmitt svona móment. Þegar kallið kemur verður viðkomandi leikmaður að vera algjörlega tilbúinn til þess að sýna að hann sé þess verðugur að vera í liðinu. Ég er fullkomlega viss um að þeir sem koma inn fyrir Jordan og Daniel munu ekki bregðast liðinu."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan