| Sf. Gutt

Spáð í spilin

                                                                     Liverpool v Tottenham Hotspur

Toppbaráttan fer harðnandi í ensku Úrvalsdeildinni og leikjunum fækkar enda Þorrinn og Góan að baki. Liverpool fær Tottenham í heimsókn á morgun. Það er mikið undir og Liverpool dugir ekkert annað en að vinna sigur. Liverpool vann sætan en nauman 2:1 sigur á Sunderland á miðvikudagskvöldið. Sá sigur var býsna harðfenginn undir lokin eftir að Liverpool hafði haft öll tök á leiknum frá byrjun. Spennan undir lokin var rosaleg en allt fór vel og þrjú stig voru hýst.

Næsta verkefni er að fást við Tottenham sem á enn einhverja möguleika á að ná einu af fjórum efstu sætunum og því er ekki annað hægt en að búast við erfiðum leik. Reyndar er Spurs algjörlega óútreiknanlegt lið. Þegar liðið leikur vel getur það veitt öllum harða keppni en þess á milli er það oft mjög slakt.


Andre Villas Boas tók við liðinu síðasta sumar eftir að hafa hrakist úr starfi hjá Chelsea og fjöldi leikmanna var keyptur síðasta sumar en það gekk ekki nógu vel að mati eigenda félagsins og Portúgalinn fékk ekki að halda áfram eftir að Liverpool tók Spurs í gegn 0:5 stuttu fyrir jólin. Þegar hann var látinn hætta var Tottenham reyndar ekki langt frá toppnum en þetta var gott dæmi um þolinmæðisleysið í knattspyrnuheiminum nú til dag. Liðið hefur svo sem hvorki batnað eða versnað eftir að Tim Sherwood tók við en það er samt hættulegur mótherji og liðið hefur náð heldur betri árangri á útivöllum en heima. Það er eftirtektarvert að Tottenham var, þegar Andre hætti, og er enn fyrir ofan ríkjandi Englandsmeistara. Einhvern tíma hefði það þótt gott!


Á síðustu leiktíð vann Liverpool harðsóttan sigur 3:2 á Anfield þegar liðin mættust þar. Þá skoraði Steven Gerrard sigurmarkið úr víti þegar leið að leikslokum. Sá sigur markaði tímamót því Liverpool vann þá sinn fyrsta sigur á liði í efri hluta deildarinnar það sem af var leiktíðarinnar. Segja má að sigurinn hafi markað nokkur þáttaskil því Liverpool gekk að mestu mjög vel til loka leiktíðar og hélt svo áfram á sömu braut þegar þessi hófst. 
  

Liverpool myndi með sigri styrkja stöðu sína enn frekar í toppbaráttunni. En til að ná sigri verður Liverpool að spila vel og betur en á móti Sunderland í síðasta leik. Liðið var ekki jafn beinskeytt þá og oft í undanförnum leikjum en sýndi um leið að það gat unnið þó það væri ekki upp á sitt besta. Þetta verða lið í toppbaráttunni að geta gert og því má segja að sigurinn væri góðs viti. Ég spái erfiðum og jöfnum leik í Musterinu á morgun. Liverpool nær samt að vinna 2:1 í taugatrekkjandi leik. Luis Suarez og Philippe Coutinho skora en Liverpool þarf að hafa verulega fyrir stigunum þremur.

YNWA

Hér eru leikmenn Liverpool að æfa fyrir leikinn á Melwood.

    
 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan