| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool heimsækir Aron Einar Gunnarsson og félaga í Cardiff á morgun í Úrvalsdeildinni. Nú ríður á að okkar menn misstígi sig ekki í baráttunni.


Fyrri leikur Liverpool og Cardiff í vetur fór fram þremur dögum fyrir jól, á Anfield Road. Leikurinn endaði með 3-1 sigri okkar manna sem gerði það að verkum að Liverpool vermdi toppsæti úrvalsdeildarinnar þegar jólin gengu í garð. Úrugvæinn ótrúlegi, Luis Suarez, skoraði tvö marka Liverpool í leiknum. Raheem Sterling það þriðja. Nú, réttum þremur mánuðum síðar, er Liverpool liðið enn í toppbaráttu og má alls ekki við því að misstíga sig á welskri grund á morgun.



Gengi Liverpool hefur verið framar vonum á þessari leiktíð og maðurinn á myndinni hér að ofan hefur svo sannarlega unnið hug og hjörtu stuðningsmanna liðsins. Brendan Rodgers hefur skýra sýn á hvernig hann vill að liðið spili og hefur byggt upp gríðarlega sókndjarft og vel spilandi lið, þrátt fyrir að hafa í sjálfu sér ekki úr miklu að moða. Hvernig sem þessi leiktíð endar er ljóst að framtíðin á Anfield er björt, meðan þessi maður er við stjórnvölinn.

Staðan í Cardiff er hinsvegar ekki eins falleg og í Liverpool þessa dagana. Fljótlega eftir tapið gegn Liverpool í desember var Malky Mackay þáverandi stjóri liðsins látinn taka pokann sinn og Norðmaðurinn Ole Gunnar Sælskjær ráðinn í hans stað. Sú breyting hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Aron Einar og félagar hafa einungis náð í 4 stig í síðustu 6 leikjum undir stjórn Norðmannsins. Einungis Crystal Palace hefur skorað færri mörk en Cardiff í vetur og aðeins Fulham hefur fengið fleiri mörk á sig.  

Nú á Liverpool einungis eftir að spila 9 leiki í deildinni og það er því afar mikilvægt að liðið misstígi sig ekki á morgun. Lið Cardiff er sýnd veiði en ekki gefin. Liðinu hefur vissulega gengið afleitlega í vetur og er í bullandi fallbaráttu, en það er ábyggilegt að leikmenn Cardiff munu leggja allt í sölurnar á morgun. Liðið berst fyrir tilverurétti sínum í deildinni og lið í slíkri stöðu geta oft reynst skeinuhætt. Það er því eins gott að menn mæti einbeittir til leiks.



Liverpool er nú í öðru sæti Úrvalsdeildar, 4 stigum á eftir toppliði Chelsea með einn leik til góða á Lundúnaliðið. Okkar menn hafa unnið 5 leiki í röð og liðið virðist ekki geta hætt að skora. Það er ekki síður jákvætt að í síðustu tveimur leikjum hefur liðinu tekist að halda markinu hreinu, en vörnin hefur í verið veikasti hlekkurinn í vetur. Vonandi er betra jafnvægi að komast á öftustu línuna. Agger og Skrtel hafa leikið vel í síðustu leikjum og ekki skemmir fyrir að Steven Gerrard hefur farið á kostum í hlutverki aftasta miðjumanns og hefur í raun leyst það hlutverk svo vel að líklega verður Lucas Leiva að gera sér það að góðu að sitja á bekknum á morgun, en hann spilaði sinn fyrsta leik eftir langvinn meiðsli þegar hann kom inn á gegn Manchester United um liðna helgi.

Þá er Mamadou Sakho kominn aftur á ferðina eftir meiðsli, en það verður einnig að teljast líklegt að hann setjist á bekkinn í upphafi leiks á morgun. Varla fer Rodgers að gera breytingar á vörn sem hefur haldið hreinu gegn Southampton og Man. U.
 


Craig Bellamy, fyrrum leikmaður Liverpool er í leikmannahópi Cardiff. Craig er nú orðinn 34 ára gamall, en hefur samt sem áður spilað 15 leiki fyrir félagið í vetur og stendur alltaf fyrir sínu. Hann hefur að vísu ekki skorað nema eitt mark, enda sóknarleikur Weilsverjanna ekki verið upp á marga fiska.



Einn mesti meistari sem hefur klætt sig í rauða búninginn - sjálfur GUÐ; Robbie Fowler - hefur einnig leikið með Cardiff. Hann lék 16 leiki fyrir liðið tímabilið 2007-2008 og skoraði í þeim 6 mörk. Svo skemmtilega vill til að Fowler er nú staddur hér á landi í tilefni 20 ára afmælis Liverpool klúbbsins á Íslandi. Hann mun fylgjast spenntur með leiknum á SPOT í Kópavogi, en árshátíð Liverpool klúbbsins fer fram á SPOT annað kvöld eins og flestir vita.

Ég hef áður sagt að mér finnst ein merkilegasta breytingin á Liverpool í vetur vera sú að liðið hefur ekki gert mikið af því klúðra leikjum gegn minni spámönnum. Ef skitan gegn Hull í byrjun desember er undanskilin hefur liðið verið nokkuð stabílt. Vonandi breytist það ekki á morgun.

Liverpool og Cardiff hafa aðeins mæst tvisvar á undanförnum árum. Annarsvegar í desember í fyrra, eins og fram hefur komið og hinsvegar í úrslitaleik deildabikarsins 2012, en þar náði Liverpool að merja sigur og ná sér í langþráða dollu. Sagan er því Liverpool í vil, eins og oftast. 

Það er einlæg ósk mín og von að leikmenn Liverpool mæti fullir einbeitingar til leiks á morgun og haldi lífi í draumnum sem við stuðningsmennirnir erum farnir að leyfa okkur að gæla við. Ég er í árshátíðarskapi og leyfi mér að spá Liverpool sigri. 2-0 verða lokatölurnar og mörkin koma að þessu sinni frá Sturridge og Allen. 

YNWA!
 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan