| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v Everton

Liverpool og Everton leiða saman hesta sína í 222. skipti annað kvöld. Það er mikið undir eins og oft áður og andrúmsloftið verður rafmagnað. Bæði lið eru í toppbaráttunni og Liverpool getur aukið forystuna á granna sína í fjögur stig með sigri. Everton getur svo komist komist upp fyrir Liverpool með sigri. Já, jafnara getur það varla verið.

Everton hefur tvær síðustu leiktíðir endað fyrir ofan Liverpool og það er sannarlega kominn tími til að breyta því. Sigur Liverpool annað kvöld ætti að hjálpa til við það. En það er á margt annað að líta fyrir þessi lið í sambandi við leikinn. Stolt og gleði stuðningsmanna en svo eru það Meistaradeildarsætin. Þau eru fjögur og það má kannski segja að þrjú þau efstu séu, um þessar mundir, skipuð liðum sem líkleg eru til að halda þeim. Fjórða sæti mætti nefna baráttusætið. Þó nokkur lið munu berjast hart um það sæti og svo sem sætin öll. Everton hefur verið vaxandi síðustu árin og eins og fyrr segir þá hafa Rauðliðar mátt sætta sig við að enda fyrir neðan granna sína tvö ár í röð. Það er tveimur árum of mikið! 

Fyrri leikur liðanna fór beina leið í knattspyrnuannála á Merseybökkum. Ótrúlegum leik lauk með 3:3 jafntefli og gátu bæði lið fært rök fyrir að eiga sigur skilinn. Það var þó varla hægt að segja annað en að jafntefli hafi verið sanngjarnt. Það kom vel fram í leiknum hversu magnaðan sóknarleik liðin geta leikið á góðum degi. Varnirnar eru kannski ekki jafn góðar. Þó er vörn Everton betri en Liverpool og hefur fengið færri mörk á sig. Það mætti því kannski vel búast við markaleik. Síðast þegar liðin mættust á Anfield í fyrravor kom á hinn bóginn ekkert mark.

Vörn Liverpool er þunnskipuð vegna meiðsla og það er hið versta mál þegar kemur að stórleik sem þessum. Martin Skrtel og Kolo Toure verða áfram miðverðir en þeir eru því miður ekki nógu traustir saman. Það má svo búast við ungliðunum Martin Kelly og Jon Flanagan í bakvarðarstöðurnar. Báðir uppaldir heimalingar og harðskeyttir en gott væri að geta gripið til reyndari manna. Það er þó alltaf svo að mikilvægustu mennirnir eru þeir sem eru til taks hverju sinni og þeir sem Brendan Rodgers sendir til leiks út í kvöldmyrkrið annað kvöld verða þeir sem mestu máli skipta. Sem betur fer eru ekki allir bestu leikmenn Everton tiltækir þannig að meiðsli setja strik í reikninginn hjá báðum liðum. 

Liverpool hefur ekki gengið nógu vel að halda markinu hreinu það sem af er leiktíðar. En sóknarleikurinn, með Luis Suarez og Daniel Sturridge í aðalhlutverkum, hefur blómstrað og í honum felast möguleikar Rauða herins á að ná Meistaradeildarsæti. Þeir eru einfaldlega besta sóknarpar ensku deildarinnar og hverri vörn ógn. Spáin hljóðar upp á gríðarlega spennu, rafmagnað andrúmsloft og 2:1 sigur Liverpool. Luis Suarez, sem hefur gengið vel að skora á móti Everton, og Raheem Sterling skora. Liverpool heldur ekki hreinu en tvö mörk duga að þessu sinni!

YNWA

    
  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan