| Grétar Magnússon

Feðgar mætast

Sögulegur atburður mun eiga sér stað á Anfield þegar Liverpool og Oldham leiða saman hesta sína í 3. umferð FA bikarsins á sunnudaginn kemur.  Brendan Rodgers stýrir Liverpool og sonur hans, Anton Rodgers mun leika á miðjunni hjá Oldham.

Fyrir Brendan Rodgers er leikurinn tækifæri til að hefna fyrir eina af hans verstu minningum síðan hann tók við knattspyrnustjórn félagsins, 3-2 tap fyrir Oldham í 4. umferðinni í janúar í fyrra.  Í vegi Rodgers stendur sonur hans Anton Rodgers sem er væntanlega að spila sinn stærsta leik á ferlinum til þessa.


Feðgarnir eiga sama afmælisdag en ákkúrat 20 ár eru á milli þeirra.  Þeir urðu báðir mjög spenntir þegar ljóst var að Liverpool myndi mæta sigurvegaranum úr viðureign Oldham og Mansfield.

,,Þetta er eitthvað sem líklega gerist aldrei á ævi manns," segir Brendan.  ,,Ég var staddur heima og vissi að drátturinn í 3. umferð væri að fara í gang en ég var að horfa á annan leik í sjónvarpinu.  Anton var að sinna syni sínum.  Ég kíkti á símann minn og sá fullt af skilaboðum frá stjóra Oldham, Lee Johnson og stjórnarformanni Oldham einnig.  Ég áttaði mig á því að við hefðum lent á móti Oldham í 3. umferð."

Fyrir Anton tók það dágóða stund fyrir hann að átta sig á því að hann væri að fara að spila á Anfield gegn föður sínum.

Hann sagði:  ,,Ég hringdi í hann en hann svaraði ekki..... Ég held að hann hafi verið að forðast að tala við mig !  Ég trúði þessu ekki í fyrstu, mér fannst þetta vera of gott til að vera satt en svo kveikti ég á sjónvarpinu og var hæstánægður.  Ég náði svo loks tali af pabba og við grínuðumst aðeins í hvor öðrum."

Síðan þá hefur lífið gengið sinn vanagang.

,,Við höfum báðir haldið áfram okkar vinnu og það hefur verið mjög mikið að gera," segir Brendan.  ,,Anton er mjög fagmannlegur og hann hefur verið að einbeita sér að sínum ferli.  Við höfum vissulega skotið á hvorn annan.  Ég sagði honum t.d. að við værum markahæstir í Úrvalsdeildinni á síðasta ári og að Anfield væri orðið óvinnandi vígi og að ég hlakkaði mikið til að sjá hann þar."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan