| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Síðasti leikur ársins hjá okkar mönnum fer fram á Stamford Bridge sunnudaginn 29. desember og hefjast leikar kl. 16:00.  Liverpool hefur á undanförnum árum gengið ágætlega á útivelli gegn Chelsea og vonandi verður áframhald á nú.


Brendan Rodgers sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að engin ný meiðsli hefðu komið upp eftir tapleikinn gegn Manchester City á fimmtudaginn var.  Áfram eru þeir Sebastian Coates, José Enrique, Daniel Sturridge, Jon Flanagan og Steven Gerrard á meiðslalistanum.  Þó er ljóst að Victor Moses er ekki í leikmannahópnum að þessu sinni en hann er jú lánsmaður frá Chelsea og má reglum samkvæmt ekki taka þátt í leiknum.  Að því sögðu má gera ráð fyrir óbreyttu byrjunarliði frá síðasta leik en erfitt er að segja hver sest á varamannabekkinn í fjarveru Moses.

Af síðustu sex leikjum Chelsea og Liverpool á þessum velli hafa okkar menn unnið þrjá sigra, tapað einum og tveir endað með jafntefli.  Síðasti tapleikur á Stamford Bridge var 4. október árið 2009, leikurinn fór 2-0 fyrir Chelsea þar sem Nicolas Anelka og Florent Malouda skoruðu mörkin.  Leikur liðanna á síðasta tímabili endaði 1-1.  John Terry kom heimamönnum yfir á 20. mínútu með skalla eftir hornspyrnu en Luis Suarez jafnaði metin á 73. mínútu einnig með skalla eftir hornspyrnu.  Þess má geta að Victor Moses kom inná á 77. mínútu fyrir Oscar og Daniel Sturridge spilaði síðustu 8 mínúturnar er hann kom inná fyrir Fernando Torres.  Ekki þarf að rifja upp síðasta leik liðanna sem fram fór á Anfield og hvað gerðist í þeim leik, vonandi einbeitir Luis Suarez sér að því að skora mörk eins og hann hefur gert svo vel á þessu tímabili.


Heimamenn eiga ekki við mikil meiðsli að stríða, þeir Ryan Bertrand og Marco Van Ginkel eru á meiðslalistanum og því getur Jose Mourinho stillt upp mjög sterku liði og ekki vantar breiddina í hópinn hans heldur.  Reyndar er Brasilíumaðurinn Ramires í banni og er það væntanlega skarð fyrir skildi en hann hefur spilað alla deildarleiki liðsins til þessa á tímabilinu og aldrei verið skipt af velli.  En þegar kemur að miðjumönnum hjá Chelsea er af nægu að taka og þar kemur maður í manns stað.

Heimamenn í Chelsea eru í 3. sæti deildarinnar, stigi fyrir ofan okkar menn með 37 stig.  Eftir tap í síðustu umferð féllu Liverpool niður í 4. sæti og spennan á toppnum er enn mikil.  Því þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þessa leiks og vont væri að missa Chelsea fjórum stigum á undan okkur á þessu stigi en það er þó ekki mikill munur.

Eftir góða frammistöðu en rýra uppskeru gegn Manchester City í síðasta leik hef ég trú á því að góð spilamennska Liverpool haldi áfram á öðrum erfiðum útivelli að þessu sinni.  Góð úrslit á þessum velli á undanförnum árum hafa auðvitað ekkert að segja þegar út á völlinn er komið en það er óskandi að leikmenn haldi áfram þessari hefð og haldi að minnsta kosti í það stig sem þeir hafa í hendi við fyrsta flaut dómarans.  Hafa ber þó í huga að Chelsea hafa aldrei tapað deildarleik  á heimavelli undir stjórn Jose Mourinho en með hverjum leiknum sem líður þá styttist nú væntanlega í fyrsta tapleikinn.  Spáin að þessu sinni er sömu úrslit og síðast á þessum velli, 1-1 og okkar menn ná í gott stig á erfiðum velli.

Að lokum minnum við á að leikurinn er að sjálfsögðu í beinni útsendingu á heimavelli okkar, Spot í Kópavogi og þar geta félagsmenn sem fyrr nýtt sér góð tilboð á mat og drykk.  Við hvetjum alla til þess að mæta og mynda góða stemmningu í síðasta leik ársins !



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan