| Heimir Eyvindarson

Grátlegt tap fyrir Manchester City

Liverpool tapaði naumlega fyrir Manchester City á Etihad vellinum í Manchester í dag. Heppnin var ekki með okkar mönnum í leiknum, ágæt frammistaða skilaði því miður engum stigum í hús.

Brendan Rodgers gerði eina breytingu á liðinu frá því í síðasta leik. Aly Cissokho kom inn í vinstri bakvörðinn fyrir Jon Flanagan, sem er meiddur. Hinn 19 ára gamli vinstri bakvörður Brad Smith var á varamannabekknum í fyrsta sinn. Í treyju númer 44.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel og pressuðu okkar menn hátt og stíft fyrstu mínúturnar. Smám saman fór hrollurinn úr Liverpool liðinu og okkar menn voru betri aðilinn á vellinum á löngum köflum í fyrri hálfleik.

Á 19. mínútu átti Suarez frábæra sendingu inn fyrir vörn heimamanna á Raheem Sterling sem komst einn inn fyrir með vel tímasettu hlaupi. Aðstoðardómarinn veifaði ranglega rangstöðu og ekkert varð úr þessari hættulegu sókn. Grátleg mistök hjá aðstoðardómaranum sem hugsanlega kostuðu okkar menn mark. Að minnsta kosti voru þeir rændir frábæru marktækifæri.

Á 24. mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar Philippe Coutinho skoraði annað mark sitt í deildinni í vetur. Luis Suarez sendi boltann á Raheem Sterling sem náði að koma sér framhjá Joe Hart í marki heimamanna. Boltinn skoppaði hinsvegar frá Sterling og fyrir fætur Coutinho, sem renndi honum í autt markið. Staðan 1-0 fyrir gestina á Etihad.

Einungis sjö mínútum síðar jafnaði City metin. Þar var að verki belgíska tröllið Vincent Kompany, sem skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Martin Skrtel reyndi hvað hann gat að hindra Belgann í teignum, en allt kom fyrir ekki. Staðan jöfn 1-1.

Á 40. mínútu mátti minnstu muna að Liverpool skoraði mark sem hefði farið langt með að vera það glæsilegasta á leiktíðinni. Sterling og Suarez áttu þá frábært samspil sem endaði með því að Coutinho stóð skyndilega á auðum sjó í markteig með Joe Hart einan til varnar. Enski landsliðsmarkvörðurinn var því miður vandanum vaxinn og varði skot Brassans meistaralega.

Tveimur mínútum síðar átti Martin Skrtel tilþrif í vítateig Liverpool sem minntu á Jamie Carragher á góðum degi, en Slóvakinn henti sér þá fyrir skot Alvaro Negredo sem kominn var í ákjósanlegt færi við markteigshornið. Boltinn fór af Skrtel og aftur fyrir og okkar menn sluppu með skrekkinn.

Á 45. mínútu var Negredo síðan aftur á ferðinni eftir gott samspil við Jesus Navas. Negredo skaut að marki og Mignolet slæmdi höndinni í boltann. Það var hins vegar ekki nóg og boltinn lak yfir línuna. Grátlegt mark rétt undir lok hálfleiksins og staðan 2-1 fyrir heimamenn á Etihad þegar leikmenn héldu til búningsherbergja í leikhléi.

Seinni hálfleikur byrjaði með álíka látum og sá fyrri. Á 50. mínútu átti Suarez ágætt skot að marki eftir sendingu frá Sterling. Skot Suarez hafnaði í Jordan Henderson sem var langt fyrir innan vörn City og ekkert annað í stöðunni fyrir Lee Mason dómara leiksins en að flauta rangstöðu á Henderson.

Á 71. mínútu mátti minnstu muna að Henderson skoraði laglegt mark með hælnum, en Joe Hart sá við honum. Á 73. mínútu fékk Sterling afar gott færi eftir góðan undirbúning Suarez, en náði ekki að gera sér mat úr því. 

Undir lok venjulegs leiktíma vildi Suarez fá víti eftir viðskipti sín við Joleon Lescott í vítateig heimamanna. Endursýningar í sjónvarpi sýndu svo ekki varð um það villst að Lescott togaði hraustlega í treyju Úrúgvæans, en Lee Mason sá enga ástæðu til þess að flauta. Líklega hjálpuðu nokkuð yfirdrifnir leikrænir tilburðir Suarez dómaranum að taka þá ákvörðun.

Eftir fjögurra mínútna uppbótartíma flautaði téður Mason til leiksloka. Lokatölur á Etihad Stadium 2-1 fyrir heimamenn í Manchester City, í leik þar sem okkar menn voru síst verri aðilinn.

Liverpool: Mignolet, Johnson, Sakho, Skrtel, Cissokho, Leiva (Aspas á 82. mín.), Henderson, Allen, Sterling, Coutinho (Moses á 68. mín.) og Suarez. Ónotaðir varamenn: Jones, Agger, Smith, Alberto og Toure

Manchester City: Hart, Zabaleta, Kompany, Lescott, Kolarov, Fernandinho, Toure, Nasri (Milner á 72. mín.), Silva (Garcia á 87. mín.), Navas og Negredo (Dzeko á 77. mín.). Ónotaðir varamenn: Pantilimon, Boyata,  Clichy, Nastasic.

Maður leiksins: Jordan Henderson er maður leiksins að þessu sinni. Hann var gríðarlega duglegur og vinnusamur og það skilar honum öðru fremur nafnbótinni í dag.

Brendan Rodgers: Ég er ánægður með margt í leik liðsins í dag. Það var að vísu mjög svekkjandi að fá á sig mark undir lok fyrri hálfleiks. Við þurfum að vera betur vakandi í svona aðstæðum. Þetta var grátlegt. Ég er líka mjög ósáttur við Lee Mason dómara leiksins. Það féll ekkert með okkur í dag og dómaratríóið gerði allt of mörg mistök. Þau stærstu þegar rangstaða var dæmd á Raheem Sterling þegar hann var kominn einn í gegn á móti Joe Hart. Það var afdrifaríkt.  

Fróðleikur:

- Þrátt fyrir tapið í dag hefur Liverpool gengið ágætlega á öðrum degi jóla, í sögulegu samhengi. Fyrir leikinn í dag hafði liðið uppskorið 20 stig úr 10 síðustu leikjum á öðrum degi jóla. Þó þarf að fara aftur til ársins 2009 til þess að fletta upp síðasta sigri Liverpool í deildinni á 26. degi desembermánaðar, en þá lagði Rauði herinn Úlfana að velli 2-0.

- Philippe Coutinho skoraði annað mark sitt á leiktíðinni.

- Brad Smith komst í fyrsta sinn í aðalliðshóp Liverpool.

Hér er viðtal sem tekið var við Rodgers strax eftir leik. 

Hér eru myndir frá leiknum.


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan