| Sf. Gutt

Toppsætið tekið!

Gluggagægir setti þrjú stig í skóinn á Anfield og Liverpool flaug í toppsætið á stysta degi ársins. Liverpool lagði Cardiff að velli 3:1 og gæti verið á toppnum þegar jólin ganga í garð. Hvernig sem það verður þá var þessi sigur nauðsynlegur áður en tveir erfiðir útileikir taka við milli jóla og nýárs.

Liverpool lék ekkert sérstaklega vel til að byrja menn og gestirnir frá Wales gáfu ekki tommu eftir. Á 6. mínútu komst Raheem Sterling fram og lagði boltann fyrir fætur Luis Suarez en vörnin bjargaði.

Eftir stundarfjórðung átti Craig Noone gott skot utan teigs hinu megin sem Simon Mignolet varð að hafa sig allan við að slá yfir. Eftir þetta setti Liverpool allt á fullt og keyrði yfir Cardiff. Fyrsta markið kom á 25. mínútu og það kom réttu megin á vellinum!

Laglegt spil fram hægra megin endaði með því að Jordan Henderson lyfti boltanum glæsilega inn í vítateiginn þar sem Luis tók hann snilldarlega á lofti og skoraði. Magnað hjá þeim félögum og sendingin hjá Jordan, sem átti stórleik, meistaraleg. Liverpool lék nú eins og liðið best getur fram að hálfleik. Philippe Coutinho skildi varnarmann eftir, á 33. mínútu, eftir spil úr hornspyrnu en gott skot hans úr þröngu færi fór í stöngina innanverða og út í teig. Í kjölfarið átti svo Jon Flanagan frábæra fyrirgjöf á Martin Skrtel sem skallaði yfir úr dauðafæri. 

Hver sókn Liverpool rak nú aðra. Glen Johnson sendi yfir á fjærstöng frá hægri, boltinn barst til Jon sem átti skot í sömu stöng og Philippe. Boltinn fór í innanverða stöngina og stefndi í markið en markmaðurinn David Marshall varði ótrúlega á línunni. Raheem komst svo inn í vítateiginn en David varði vel. Á 40. mínútu sendi Joe Allen frábæra sendingu á Glen sem komst einn í gegn en missti boltann of langt frá sér.

Tveimur mínútum seinna skoraði Liverpool loksins annað mark sitt. Jordan sendi stórfenglega utanfótarsendingu inn fyrir vörn Cardiff og þrír leikmenn Liverpool voru allt í einu á auðum sjó. Luis fékk boltann, lék inn í vítateiginn og rúllaði boltanum svo til hægri á Raheem sem skoraði örugglega. Frábær sókn!

Á lokaminútunni gerði Liverpool svo gott sem út um leikinn. Jon og Jordan léku saman vinstra megin og það endaði með því að Jordan sendi laglega hælsendingu á Luis sem skoraði með hárnákvæmu skoti neðst í hægra hornið. Allt gekk af göflunum af fögnuði. Snilldartaktar og kannski leyfðu einhverjir sér að hugsa orðið meistarataktar!

Liverpool hóf síðari hálfleikinn vel en svo róaðist atgangurinn. Gestirnir réttu úr sér og öllum að óvörum skoruðu þeir á 58. mínútu. Jordan Mutch skallaði þá í mark eftir aukaspyrnu frá hægri. Slakur varnarleikur hjá Liverpool og enn næst ekki að halda hreinu. 

Allt var nú heldur tíðindalítið þar til á 76. mínútu en þá átti Philippe frábæra sendingu fram á Raheem sem rauk inn í vítateiginn. Markmaðurinn kom út á móti og náði að trufla hann, boltann hrökk á Luis sem átti skot í stöng úr þröngu færi. Á 83. mínútu munaði aftur litlu að Luis næði þrennunni. Hann átti þá bogaskot sem fór rétt framhjá. 

Ekki var meira skorað í skammdegissólinni á þessum stysta degi ársins en stuðningsmenn Liverpool fögnuðu vel þegar dómarinn flautaði leikinn af og staðfesti þar með stöðu Liverpool í efsta sæti deildarinnar. Það er mikið eftir en það var frábært að sjá Liverpool spila í dag og kraftur liðsins í fyrri hálfleiknum var með ólíkindum!

Liverpool: Mignolet, Johnson, Flanagan (Kelly 55. mín.), Leiva, Skrtel, Sakho, Allen, Henderson, Suarez, Sterling og Coutinho (Agger 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, Alberto, Aspas og Moses.
 
Mörk Liverpool:
 Luis Suarez (25. og 45. mín.) og Raheem Sterling (42. mín.).

Gul spjöld: Martin Skrtel og Raheem Sterling.
 
Cardiff City:
Marshall, Theophile-Catherine, Taylor, Medel (Campbell 55. mín.), Caulker, Turner, Noone, Mutch, Odemwingie (Kim 55. mín.), Aron Einar (Cornelius 80. mín.) og Whittingham. Ónotaðir varamenn: Hudson, Cowie, Lewis og John.
 
Mark Cardiff City: Jordan Mutch (58. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: 44.621.
 
Maður leiksins: Raheem Sterling. Þessi efnilegi strákur hefur öðlast mikið sjálfstraust í síðustu leikjum. Hann skoraði þriðja mark sitt í fjórum leikjum og herjaði við hvert tækifæri á vörn Cardiff. Svo er hann líka farinn að berjast miklu meira en hann gerði og það bætir leik hans mikið. 

Brendan Rodgers: Luis Suarez ver enn einu sinni framúrskarandi í mjög góðum leik liðsins. Spilið  í fyrri hálfleik gekk rosalega smurt og það er alveg með besta móti hvernig við pressum á mótherjana. Við byrjuðum síðari hálfleikinn vel en við vorum illa á verði þegar þeir skoruðu. Ég er ekkert að hugsa um titilinn.

                                                                                      Fróðleikur:

- Liverpool fór með sigrinum á topp deildarinnar.

- Luis Suarez er nú með þessum tveimur mörkum kominn með 19 mörk á leiktíðinni.

- Raheem Sterling skoraði fjórða mark sitt á sparktíðinni og það þriðja í fjórum síðustu leikjum.
 
- Liverpool vann sjötta sigurinn í röð á Anfield Road.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers eftir leikinn.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan