| Heimir Eyvindarson

Einbeitum okkur að Cardiff leiknum

Leikmenn og stuðningsmenn Liverpool eru í skýjunum eftir frábæran 5-0 sigur á Tottenham í gær. Brendan Rodgers bíður það erfiða verkefni að koma leikmönnum niður á jörðina fyrir næsta leik.

Liverpool liðið sýndi allar sínar bestu hliðar í leiknum gegn Tottenham á White Hart Lane í gær. Næsti leikur í deildinni er gegn nýliðum Cardiff, en þeir mæta á Anfield á laugardaginn. Brendan Rodgers segir leikmenn gera sér fulla grein fyrir því að lærisveinar Malky Mackay séu engin lömb að leika sér við. 

,,Mackay hefur gert góða hluti með Cardiff. Hann kom þeim upp í efstu deild og þeir hafa sýnt gott skipulag og aga. Þeir geta reynst okkur skeinuhættir. Þetta verður erfiður leikur", segir Rodgers í viðtali við Talksport.

Jóladagskráin hjá Liverpool er ansi erfið, en eftir Cardiff leikinn taka við útileikir gegn Manchester City og Chelsea. Brendan Rodgers segist hlakka til þeirra leikja, sérstaklega eftir frammistöðu liðsins í gær, en varar menn jafnframt við því að fara fram úr sér. Fyrst verði liðið að eiga góðan leik gegn Cardiff.

,,Við höfum staðið okkur nokkuð vel í vetur, en það hafa komið bakslög í okkar leik inn á milli eins og gerist hjá öllum liðum og við viljum ekki að það gerist á laugardaginn. Það þurfa allir að sýna 100% einbeitingu fyrir það verkefni."

,,Við lentum í 7. sæti í deildinni á síðustu leiktíð, 8. sæti þar áður. Við stefnum á að enda ofar í vor. Auðvitað vilja allir vinna deildina, en ég vil ekki að menn fari fram úr sér í væntingum."

,,Við förum í alla leiki til þess að vinna þá og við erum í stöðugri framför. Vonandi náum við Meistaradeildarsæti, það er markmið númer eitt. Allt umfram það er bónus og alls ekki tímabært að velta slíkum hlutum fyrir sér. Það hefur ekkert lið farið frá því að enda í 7. sæti í það að vinna deildina á einu tímabili. Við verðum að anda rólega."

Í lok viðtalsins barst talið að hinum sjóðheita Luis Suarez, sem hefur skorað 17 mörk í 11 leikjum á leiktíðinni.

,,Hann er algerlega ótrúlegur leikmaður. Það eru forréttindi að hafa hann í sínu liði og það má segja að það verði meiri og meiri forréttindi að vinna með honum með hverjum deginum sem líður. Hann hefur þroskast mikið og er mjög einbeittur og auðmjúkur."

,,Hann elskar að spila fótbolta og hann vill helst gera það allan daginn. Hann leggur gríðarlega hart að sér og gefur sig alltaf 100% í hvern einasta leik. Honum líður mjög vel í Liverpool, hann elskar félagið og stuðningsmennina. Stórkostlegur leikmaður."






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan