| Grétar Magnússon

Suarez sýningin !

Luis Suarez skráði sig enn og aftur í sögubækur félagsins í 5-1 sigri á Norwich City.  Úrúgvæinn skoraði fjögur af fimm mörkum liðsins og varð þar með fyrsti leikmaðurinn í sögu Úrvalsdeildarinnar sem skorar þrjár þrennur gegn sama liðinu.

Brendan Rodgers gerði þrjár breytingar frá tapinu gegn Hull, inn komu þeir Daniel Agger, Joe Allen og Philippe Coutinho í stað Kolo Toure, Lucas Leiva og Victor Moses.

Liverpool menn byrjuðu vel en það sama má segja um gestina.  Bæði lið reyndu að spila hratt, okkar menn voru sterkari en þó án þess að skapa mikla hættu, þau skot sem leikmenn reyndu fóru í varnarmenn og oft vantaði hreinlega upp á að síðasta sending næði til samherja.  Gestirnir börðust vel og allt leit út fyrir spennandi leik.


En á 15. mínútu kom enn og aftur í ljós að Luis Suarez er leikmaður í hæsta gæðaflokki.  John Ruddy, markvörður gestanna, spyrnti frá marki og á miðjunni vann Gerrard skallaeinvígi og boltinn skoppaði í áttina til Suarez.  Hann lét boltann skoppa tvisvar áður en hann skaut að marki, boltinn fór í fallegum boga yfir Ruddy og beint í markhornið.  Stórglæsilegt mark af rétt tæplega 40 metra færi !  Leikurinn breyttist örlítið við þetta, heimamenn spiluðu af meira öryggi og á 29. mínútu sendi Martin Skrtel langa sendingu fram völlinn til Coutinho sem var á vinstri kanti, vissulega sending sem Skrtel er ekki vanur að reyna.  Hún heppnaðist hinsvegar fullkomlega og Coutinho vann hornspyrnu sem hann tók sjálfur.  Boltinn barst inná vítateig þar sem Gerrard gerði vel í að beygja sig niður til að hleypa boltanum áfram.  Hver annar en Suarez var þá mættur til að smella boltanum í markið af stuttu færi, staðan orðin 2-0 og mikil kátína á Anfield.


Suarez fullkomnaði svo þrennu sína á 35. mínútu.  Hann fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Norwich og skeiðaði í átt að marki.  Hann lyfti boltanum fallega framhjá einum varnarmanna og hikaði lítið eitt við áður en hann þrumaði svo boltanum í fjærhornið, óverjandi fyrir Ruddy í markinu eins og hin tvö mörk kvöldsins.  Svei mér þá ef þetta mark var bara ekki fallegra en fyrsta markið.  Suarez kominn með þrennu í fyrri hálfleik og er hann þar með aðeins þriðji leikmaðurinn í sögu Úrvalsdeildarinnar sem nær þeim árangri, það skemmtilega er að hinir tveir gerðu það einnig í búningi Liverpool, Robbie Fowler og Michael Owen.


Fátt markvert gerðist fram að hálfleik og liðin mættu óbreytt aftur til leiks í síðari hálfleik.  Sem fyrr voru heimamenn sterkari og hefðu vel getað skorað en Raheem Sterling komst einna næst því er hann lék inní vítateig með marga samherja í kringum sig til að senda á en hann kaus að skjóta og boltinn fór í varnarmann og framhjá markinu.  Það var svo ekki fyrr en 15 mínútum fyrir leikslok að fjórða markið kom og ekki þarf að nefna sérstaklega hver það var sem skoraði.  Brotið var á Steven Gerrard fyrir utan vítateig og Suarez skoraði auðvitað úr þessari spyrnu, skotið fór yfir varnarvegginn og var óverjandi fyrir greyið Ruddy sem væntanlega er kominn með nóg af því að hirða boltann úr markinu eftir Luis Suarez.

Gestirnir minnkuðu muninn á 82. mínútu er Redmond sendi fyrir markið frá vinstri og þar var Bradley Johnson mættur til að skalla boltann í netið.  Óþarfi að fá á sig þetta mark og vissulega hefði verið skemmtilegra að halda hreinu.  Heimamenn voru samt ekki hættir og Suarez lagði upp mark fyrir Sterling tveimur mínútum fyrir leikslok og þar við sat, 5-1 frábær og öruggur sigur á Norwich staðreynd.


Liverpool:  Mignolet, Johnson, Skrtel, Agger, Flanagan, Allen, Gerrard, Henderson (Alberto, 69. mín.), Sterling, Coutinho og Suarez (Aspas, 90. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Jones, Touré, Sakho, Moses og Leiva.

Mörk Liverpool: Luis Suarez (15., 29., 35. og 74. mín.) og Raheem Sterling (88. mín.).

Gul spjöld:  Joe Allen, Steven Gerrard og Jon Flanagan.

Norwich:  Ruddy, Martin, Bassong, Olsson, Bennett, Johnson, Howson, Fer (Whittaker, 72. mín.), Hoolahan (Murphy, 62. mín.), Redmond og Elmander (Hooper, 69. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Nash, Turner, Garrido og Becchio.

Mark Norwich:  Bradley Johnson (83. mín.).

Gult spjald:  Bradley Johnson.

Áhorfendur á Anfield:  44.541.

Maður leiksins:  Luis Suarez, þarf að segja meira ?

Brendan Rodgers:  ,,Fyrirsagnirnar eftir þennan leik skrifa sig sjálfar - þetta var einfaldlega stórkostlegt.  Það var mjög ánægjulegt fyrir mig að horfa á liðið í kvöld, taktískt séð vorum við mjög góðir.  Frammistaða Suarez var hreint mögnuð.  Ég vil helst alltaf tala um liðið en maður getur ekki sleppt því að minnast á Suarez í kvöld því hann er einn besti sóknarmaður heims í dag.  Frammistaðan var hreint ótrúleg."

Fróðleikur:

- Luis Suarez hefur skorað 13 mörk á leiktíðinni í aðeins 9 leikjum.

- Hann er markahæstur í deildinni, næstur er Sergio Aguero með 11 mörk.

- Hann hefur nú skorað 11 mörk gegn Norwich í 5 leikjum.

- Suarez er fyrsti leikmaður Úrvalsdeildarinnar sem skorar þrjár þrennur gegn sama liðinu.

- Suarez er þriðji leikmaðurinn í sögu Úrvalsdeildarinnar sem skorar þrennu í fyrri hálfleik.

- Suarez hefur skorað 51 mark í 86 leikjum fyrir Liverpool í Úrvalsdeildinni.

- Suarez er frábær leikmaður.

- Raheem Sterling skoraði annað mark sitt á leiktíðinni.

- Liverpool sitja í fjórða sæti deildarinnar með 27 stig.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leik.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan