| Heimir Eyvindarson

Skelfilegur skellur í Hull

Liverpool steinlá í dag 3-1 fyrir Hull City á KC Stadium í Hull. Langt er síðan Liverpool liðið hefur spilað jafn illa og í dag.

Brendan Rodgers stillti upp eilítið breyttu liði frá því í leiknum gegn Everton um liðna helgi. Daniel Sturridge meiddist illa á æfingu í gær og verður ekki meira með á þessu ári og Victor Moses kom inn í liðið fyrir hann. Þá var Coutinho tæpur fyrir leikinn þannig að Raheem Sterling byrjaði nokkuð óvænt. Kolo Toure fékk síðan sæti í liðinu aftur, á kostnað Daniels Agger. Skýring Rodgers á því vali mun hafa verið að Toure væri sterkari í föstum leikatriðum. Moses og Sterling voru á sitthvorum kantinum og sjálfsagt hefur plan Rodgers verið að reyna að teygja á þéttri vörn heimamanna. Það gekk aldeilis ekki.

Það var sæmilegt jafnræði með liðunum framan af, en ósköp lítið að gerast. Á 20. mínútu skoraði Jake Livermore, sem er í láni frá Tottenham, mark eftir ágætan samleik við félaga sinn David Meyler. Skot Livermore fór af Martin Skrtel og í markið, framhjá varnarlausum Mignolet. Staðan 1-0 fyrir heimamenn.

Sjö mínútum síðar jafnaði Steven Gerrard metin með marki beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig. Staðan 1-1 á KC Stadium.

Fyrri hálfleikur leið án frekari tíðinda og leikmenn gengu til búningsherbergja með skiptan hlut, sem var nokkuð sanngjörn staða.

Hafi Liverpool liðið verið slappt í fyrri hálfleik var það í raun ekkert miðað við hvernig liðið lék í þeim seinni. Liðið fékk einungis tvö færi, hið fyrra fékk Victor Moses á 71. mínútu, eftir góða sendingu frá Suarez, en Moses klúðraði því með glæsibrag. Hið síðara var ágæt aukaspyrna sem Luis Suarez setti rétt framhjá marki Hull á 83. mínútu.

Hull skoraði annað mark sitt á 71. mínútu, rétt eftir að Moses hafði klúðrað færi hinum megin á vellinum. Eftir klaufagang og klafs í teignum skoraði David Meyler með ágætu skoti utan úr teig. Staðan 2-1.

Á 86. mínútu skaut Tom Huddlestone meinleysislegu skoti að marki Liverpool. Af einhverjum undarlegum ástæðum ákvað Martin Skrtel að fleygja sér á boltann, sem hafnaði í enninu á honum og þaðan í markið framhjá Mignolet. Eitt af slysalegri sjálfsmörkum sem sést hafa.

Undir lok leiksns mátti svo minnstu muna að Ahmed Elmohamady kæmi heimamönnum í 4-1 þegar hann slapp einn inn fyrir slaka vörn Liverpool, en það gekk sem betur fer ekki. Niðurstaðan á KC Stadium 3-1 sigur heimamanna í skelfilegum leik af hálfu okkar manna.

Liverpool: Mignolet, Flanagan, Johnson, Toure, Skrtel, Gerrard, Henderson, Leiva, Moses (Alberto á 74. mín.), Sterling (Coutinho á 66. mín.) og Suarez. Ónotaðir varamenn: Jones, Agger, Allen, Aspas og Sakho.

Hull: McGregor, Elmohamady, Figueroa, Davies, Bruce, Meyler, Huddlestone, Livermore, Brady (Boyd á 90. mín.), Koren (Rosenior á 66. mín.), Sagbo (Graham á 88. mín.). Ónotaðir varamenn: Harper, Faye, Chester, Gedro.

Maður leiksins: Það er ekki hægt að velja mann leiksins í dag.

Brendan Rodgers: Við gerðum allt of mikið af mistökum í dag, bæði sóknarlega og varnarlega. Það verður að segjast að varnarleikur liðsins er talsvert áhyggjuefni. Við höfum nú fengið á okkur sex mörk í síðustu tveimur útileikjum. Það er alls ekki ásættanlegt.

Fróðleikur

- Þetta var fyrsti sigur Hull á Liverpool í öllum keppnum.

- Síðast þegar liðin mættust, í maí 2010, stjórnaði Rafa Benitez Liverpool liðinu í síðasta sinn.

- Í þeim sama leik varð Jack Robinson yngsti leikmaðurinn í sögu Liverpool til þess að spila alvöru leik með aðalliðinu. Hann var 16 ára og 250 daga gamall þegar honum var skipt inn á undir lok leiksins.

- Þetta var á fimmta sinn sem Steve Bruce leiðir lið til sigurs gegn Liverpool, í 22 tilraunum. Þrisvar sinnum með Birmingham og einu sinni með Sunderland hefur hann afrekað það sama og í dag.

- Steven Gerrard skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni.

- Steven Gerrard hefur nú skorað fjögur mörk gegn Hull, fleiri en nokkur annar leikmaður Liverpool.

- Jordan Henderson hefur spilað hverja einustu mínútu í deildinni, einn útileikmanna Liverpool.
 
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér má lesa viðtal við Brendan Rodgers af opinberri heimasíðu Liverpool.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan