| Grétar Magnússon

Ótrúlegur nágrannaslagur

Liverpool og Everton gerðu magnað 3-3 jafntefli á Goodison Park í fyrsta leik 12. umferðar.  Liverpool leiddi tvisvar í leiknum, lentu undir 3-2 þegar örfáar mínútur voru eftir en náðu að jafna leikinn á næstsíðustu mínútu leiksins !

Brendan Rodgers gerði tvær breytingar frá leiknum við Fulham en Daniel Sturridge settist á bekkinn og Aly Cissokho var ekki í leikmannahópnum að þessu sinni.  Í þeirra stað komu þeir Joe Allen og Jon Flanagan.


Eftir aðeins fjórar mínútur fengu gestirnir hornspyrnu eftir að Steven Gerrrard átti langa sendingu fram völlinn sem ætluð var Coutinho á vinstri kantinum.  Varnarmaður Everton skallaði boltann en hann fór afturfyrir markið.  Gerrard tók hornspyrnuna og boltinn endaði á fjærstönginni hjá Coutinho sem var aleinn og óvaldaður.  Brasilíumaðurinn tók boltann rólega niður á hnéð og skaut honum svo með ristinni í markið !  Gestirnir komnir yfir og fögnuðurinn mikill.


Það entist því miður ekki eins lengi og menn hefðu viljað er heimamenn fengu aukaspyrnu úti á velli þrem mínútum síðar.  Spyrnan var tekin og boltinn datt fyrir Mirallas sem náði að skora.  Varnarleikur okkar manna í þessu fasta leikatriði því miður ekki eins og best verður á kosið.  En áfram hélt hraður og skemmtilegur leikur þar sem liðin skiptust á að sækja.  Skömmu síðar gerði Gerrard sig sekan um slæm mistök á miðjunni er Pienaar vann boltann af honum og sendi Lukaku einan í gegn.  Gott úthlaup Mignolet varð þó til þess að boltinn fór af Lukaku og afturfyrir markið, þar má sannarlega segja að Mignolet hafi gert vel.

Á 19. mínútu sýndi svo Luis Suarez af hverju hann er einn besti leikmaður heims um þessar mundir.  Hann fékk aukaspyrnu úti fyrir vítateig, hann tók spyrnuna sjálfur og sneri boltann framhjá varnarveggnum og neðst í markhornið óverjandi fyrir Howard í markinu !  Staðan orðin 1-2 gegn gangi leiksins þar sem heimamenn höfðu verið meira ógnandi fram að markinu.  Heimamenn héldu áfram að sækja og Ross Barkley átti skot eða fyrirgjöf sem stefndi í fjærhornið en Mignolet varði vel.

Skömmu síðar virtist Suarez meiðast og var hann haltrandi um völlinn í skamma stund.  Eitt skiptið reyndi hann sendingu fyrir markið frá vinstri en boltinn var skallaður frá, Suarez náði til boltans aftur en þá kom Mirallas aðvífandi með takkana ansi hátt á lofti og setti fótinn í hnésbótina á Suarez.  Mikil reikistefna hófst nú þar sem Suarez lá óvígur á eftir og þurfti aðhlynningu sjúkraþjálfara.  Eftir þónokkra stund gaf Phil Dowd Mirallas gult spjald og slapp Belginn þar vel en auðveldlega hefði mátt gefa rautt spjald fyrir þessa tæklingu.


Fram að hálfleik gerðist svo sem ekki mikið ef þannig má að orði komast en eins og áður sagði var leikurinn fjörugur í meira lagi en liðin gengu til búningsherbergja í stöðunni 1-2.  Óbreytt lið gestanna mætti til leiks í seinni hálfleik og áfram hélt hraðinn.  

Skömmu eftir að seinni hálfleikur hófst þurfti Leighton Baines að yfirgefa völlinn hjá heimamönnum og í hans stað kom Spánverjinn Gerard Deulofeu.  Ekki var langt liðið á síðari hálfleik þegar Deulofeu komst einn gegn Mignolet eftir hraða skyndisókn en sem fyrr varði Belginn vel og gestirnir bægðu hættunni frá.

Á 59. mínútu hefði svo Joe Allen átt að koma Liverpool í 1-3 er boltinn datt dauður inní vítateig eftir að Suarez reyndi að komast í gegn.  Þeir tveir voru einir gegn Howard og Allen virtist eiga auðvelt verk fyrir höndum með að setja boltann í markið en á einhvern óskiljanlegan hátt skaut hann boltanum framhjá.  Það hefði líka verið mjög auðvelt fyrir Allen að renna boltanum til hliðar á Suarez en þarna fór frábært færi svo sannarlega forgörðum.  Fimm mínútum síðar komst Lukaku svo í gott færi vinstra megin í vítateignum en sem fyrr var það Mignolet sem varði, skömmu síðar fékk Lukaku aftur skotfæri, nú hægra megin í teignum en skotið var ekki gott og Mignolet varði og hélt svo boltanum.  Á 68. mínútu kom Victor Moses inná fyrir Joe Allen.

Áfram héldu Belgarnir að etja kappi og Lukaku þrumaði að marki beint úr aukaspyrnu, boltinn breytti um stefnu en Mignolet varði.  Boltinn barst út til vinstri þar sem heimamenn voru fljótari að átta sig og náðu boltanum, sending kom inná vítateig þar sem Lukaku var einn og óvaldaður og nú náði hann að koma boltanum framhjá landa sínum í markinu og jafna 2-2.  Skömmu síðar kom Daniel Sturridge inná fyrir Lucas Leiva sem hafði fengið gult spjald fyrr í leiknum.

Heimamenn héldu nú áfram að sækja eftir að hafa jafnað leikinn.  Deulofeu komst í ágætt færi vinstra megin í teignum en Mignolet varði enn og aftur vel.  Hornspyrnan var tekin, hún rataði beint á kollinn á Lukaku sem var óvaldaður á vítateignum og hann átti fastan skalla sem var óverjandi.  Staðan orðin 3-2 og aðeins sex mínútur eftir af leiknum !  Gestirnir gáfust samt ekki upp og sóttust eftir jöfnunarmarki.  Victor Moses fékk aukaspyrnu úti hægra megin er Distin fór of hátt með fótinn.  Steven Gerrard tók spyrnuna og hún rataði beint á Sturridge sem skallaði í fjærhornið !  Staðan orðin 3-3 í hreint ótrúlegum leik og aðeins mínúta eftir af venjulegum leiktíma.


Það var samt nóg til þess að Liverpool menn fengu hornspyrnu. Moses fékk skallafæri en náði ekki að stýra boltanum á rammann. Suarez átti svo skot sem Howard varði í horn. Heimamenn voru svo hreint ekki langt frá því að skora í blálokin en skot McCarthy komst ekki framhjá varnarmönnum og Dowd flautaði svo til leiksloka. Besti leikur Liverpool og Everton í áraraðir var búinn en um leið var hann tryggilega kominn í annála.

Everton:  Howard, Baines (Deulofeu, 50. mín.), Jagielka, Distin, Coleman, Mirallas (Osman, 88. mín.), McCarthy, Barry, Barkley, Pienaar (Stones, 83. mín.), Lukaku.  Ónotaðir varamenn:  Robles, Heitinga, Naismith, Jelavic.

Mörk Everton:  Kevin Mirallas (8. mín.), Romelu Lukaku (72. og 82. mín.).

Gul spjöld:  Barkley, Mirallas, Distin og Barry.

Liverpool:  Mignolet, Flanagan, Skrtel, Agger, Johnson, Leiva (Sturridge, 79. mín.), Gerrard, Henderson, Allen (Moses, 68. mín.), Coutinho, Suarez.  Ónotaðir varamenn:  Jones, Touré, Sakho, Luis Alberto, Sterling.

Mörk Liverpool:  Philippe Coutinho (5. mín.), Luis Suarez (19. mín.) og Daniel Sturridge (89. mín.).

Gul spjöld:  Allen, Lucas og Suarez.

Áhorfendur á Goodison Park:  39.576.

Maður leiksins:  Í svona fjörugum leik þar sem bæði lið hefðu hreinlega getað skorað mun fleiri mörk verður að velja Simon Mignolet sem mann leiksins að þessu sinni.  Hann varði oft á tíðum mjög vel einn gegn einum.  Mörkin sem hann fékk á sig gat hann lítið gert við en að öðru leyti stóð hann sig frábærlega.  Einnig verður þó að minnast á Jon Flanagan sem stóð sig mjög vel í vinstri bakverði í erfiðum leik.

Brendan Rodgers:  ..Hjartað í mér stöðvaðist! Þessi leikur hafði allt; það voru gæði, það voru góðar stundir og stundir þar sem maður varð fyrir vonbrigðum.  Þegar maður kemur á heimavöll nágrannana og spilar eins og við gerðum oft á tíðum í leiknum, sýndum karakter og andleg gæði að jafna leikinn aftur í blálokin, það segir mér allt sem þarf um hvar liðið mitt er statt. Við erum vonsviknir því í stöðunni 1-2 hefðum við getað komist í 1-3 og það hefði leyft okkur að stjórna leiknum mun betur."

Fróðleikur:

- Luis Suarez og Daniel Sturridge hafa nú skorað níu mörk hvor í deildinni það sem af er leiktíðar. Daniel hefur skorað 11 mörk í öllum keppnum.

- Luis Suarez hefur þrisvar sinnum spilað á Goodison Park og ávallt skorað í heimsóknum sínum þangað.

- Hann hefur skorað fjórum sinnum á móti Everton.

- Philippe Coutinho skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni.

- Glen Johnson spilaði sinn 150. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Þetta var 20. deildarleikur Philippe fyrir félagið og hefur hann skorað í þeim 4 mörk.

- Steven Gerrard tók þátt í sínum 30. grannaslag. Hann jafnaði þar með Jamie Carragher.

Hér má sjá viðtal við Brendan Rodgers eftir leik.

Hér má sjá myndir úr leiknum.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan