| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það er alltaf mikil tilhlökkun fyrir leikina við Everton og staða liðanna í deildinni að þessu sinni gerir leikinn enn meira spennandi.  Leikurinn hefst kl. 12:45 á morgun, laugardaginn 23. nóvember.


Er þetta nágrannaslagur númer 221 þegar allir leikir eru taldir. Það hefur ekki gerst síðan árið 2001 að Liverpool mætir Everton án David Moyes við stjórnvölinn en í sumar var Roberto Martinez ráðinn til félagsins frá Wigan.  Eins og flestir muna var Martinez orðaður við starf knattspyrnustjóra Liverpool áður en Brendan Rodgers var svo ráðinn til starfans.

Liverpool sitja í 2. sæti deildarinnar með 23 stig á meðan Everton eru í því 6. með 20 stig og geta því jafnað nágranna sína að stigum með sigri.  Liverpool tylla sér á topp deildarinnar að minnsta kosti tímabundið með sigri.


Ef litið er á síðustu sex viðureignir liðanna á Goodison Park má sjá að okkar menn hafa náð góðum úrslitum þar á síðustu árum.  1 tap, 1 jafntefli og fjórir sigrar hafa litið dagsins ljós og í raun hefur gengi liðsins síðan árið 2001 verið mjög gott á þessum velli.  Ekki þarf að minna menn á sigurinn sem vannst í apríl árið 2001 þar sem Gary McAllister skoraði ótrúlegt mark beint úr aukaspyrnu langt utan af velli og tryggði þar með 2-3 sigur þeirra rauðu.  Var þetta fyrsti sigur Liverpool á Goodison frá stofnun Úrvalsdeildarinnar og síðan þá hafa 8 sigrar komið í hús sem gera þá 9 alls í 21 leik frá árinu 1992.  Af þessum 21 hafa Everton unnið 7 og 5 hafa endað með jafntefli.


Fyrsti leikur Brendan Rodgers sem stjóri Liverpool á þessum velli endaði með 2-2 jafntefli eins menn kannski muna.  Leikurinn fór fram þann 28. október í fyrra.  Luis Suarez kom gestunum í 0-2 og fagnaði fyrra markinu með því að henda sér niður fyrir framan David Moyes en sá síðarnefndi hafði einmitt haft það á orði fyrir leik að Úrúgvæinn væri jú gjarn á að láta sig falla með tilþrifum.  Heimamenn jöfnuðu svo metin fyrir leikhlé.  Síðari hálfleikur var svo í járnum og í uppbótartíma var löglegt mark dæmt af Suarez þar sem línuvörðurinn flaggaði rangstöðu þegar augljóst var að Suarez var það ekki.  Úrslitin því 2-2 og eftir þann leik sátu okkar menn í 12. sæti deildarinnar en Everton í því 5.


Af meiðslum leikmanna er það helst að frétta að Daniel Sturridge er tæpur fyrir leikinn og José Enrique verður ekki með.  Aðrir leikmenn eru klárir í slaginn og þó svo að kannski sé um einhver smávægileg meiðsli að ræða þá gleyma menn því fljótt þegar þeir horfa á mótherjann og mikilvægi leiksins.  Fjórir leikmenn eru meiddir hjá þeim bláu, Kone, Vellios, Gibson og Alcaraz en sá síðastnefndi gæti verið búinn að ná sér af sínum meiðslum og verið klár í slaginn.

Forvitnilegt verður að sjá hvernig Rodgers stillir upp byrjunarliðinu en hann er nú ekki vanur að gera miklar breytingar milli leikja.  Síðasti leikur vannst örugglega gegn Fulham 4-0 og ef Sturridge nær ekki leiknum er auðvitað ljóst að Rodgers er nauðbeygður til að breyta liðinu.  Ekki er um auðugan garð að gresja þegar kemur að sóknarmönnum þar sem Iago Aspas er líka meiddur, missi Sturridge af leiknum er því nokkuð ljóst að Suarez mun vera einn frammi.  Rodgers sagði svo í viðtali við staðarblaðið Liverpool Echo að hann gæti notað Jon Flanagan í vinstri bakverði í þessum leik, velta menn því þá fyrir sér hvað Aly Cissokho muni gera en hann sest þá væntanlega á bekkkinn.  Rodgers sagði í sama viðtali að hann myndi ekki vilja nota Mamadou Sakho í vinstri bakverði, það var reynt gegn Southampton fyrr í vetur og bar ekki árangur eins og úrslit þess leiks bera vitni um.

Þegar kemur að því að spá fyrir um úrslit leiksins hallast undirritaður að því að um sömu úrslit og í fyrra verði að ræða, 2-2.  Það mætti setja í sviga 1-2 útisigur en við látum 2-2 jafntefli standa að þessu sinni.  Þetta er það mikilvægur leikur að hann má hreinlega ekki tapast.

Fróðleikur:

- Eins og áður sagði er þetta nágrannaslagur númer 221 !

- Síðustu 11 tímabil hefur fyrri leikur liðanna á tímabilinu verið á Goodison Park.

- Daniel Sturridge og Luis Suarez eru markahæstir í deildinni á tímabilinu með 8 mörk hvor.

- Þeir Steven Gerrard, Jordan Henderson, Daniel Sturridge og Simon Mignolet eru einu leikmenn liðsins sem hafa komið við sögu í öllum 11 leikjum liðsins í deildinni til þessa.

- Ian Rush skoraði á sínum ferli alls 25 mörk í 36 leikjum fyrir Liverpool gegn Everton !

- Næstur á þessum lista er Steven Gerrard með 8 mörk í 29 leikjum.

- Tveir aðrir leikmenn hafa skorað 8 mörk gegn Everton, þeir Jack Parkinson og Harry Chambers.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan