| Sf. Gutt

Stoltur og ánægður!

Um daginn var tilkynnt að Kenny Dalglish væri búinn að taka sæti í stjórn Liverpool Football Club. Segja má að þetta hafi verið fjórða koma Kóngsins til Liverpool. Hann kom sem leikmaður frá Celtic sumarið 1977. Árið 2009 fékk Rafael Benítez Kenny til að vera nokkurs konar sendiherra félagsins og vinna í Akademíunni. Í janúar 2011 tók hann svo við starfi framkvæmdastjóra Liverpool eftir að Roy Hodgson fór frá. Hann stýrði Liverpool til vordaga 2012 en nú er Kenny kominn til starfa hjá Liverpool í fjórða sinn. Að þessu sinni sem stjórnarmaður í stjórn félagsins. Kenny hafði meðal annars þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.com eftir að hann tók sæti í stjórninni.

Kenny, velkominn heim. Hvernig er að vera kominn aftur?

Ég er stoltur og það eru forréttindi að hafa verið beðinn að koma aftur. John Henry og stjórnarmennirnir buðu mér að koma inn í stjórnina án þess að hafa atkvæðisrétt. Ég er mjög stoltur og ánægður með að vera kominn aftur. Mér finnst reyndar svolítið vandræðalegt að fá svona gott sæti til að horfa á leikina! Ég nýt þeirra forréttinda á öllum þeim leikjum sem ég kem á að fá sæti á besta stað. Það er heiður að vera kominn aftur hingað og ég er mjög lánsamur að hafa fengið tækifæri til þess.

Segðu okkur hvernig þetta kom allt til. Hver voru viðbrögð þín þegar þú fékkst tilboð um að koma aftur?

John Henry sagði einfaldlega að hann vildi að ég kæmi inn í stjórnina. Þetta var mjög einfalt. Brendan er sá maður sem mestu skiptir í þessari endurkomu. Framkvæmdastjórinn er mikilvægari en ég og staða hans var mikilvægari en staðan mín. Ég hefði skilið það vel ef hann hefði ekki verð sammála því að ég kæmi aftur. Ef hann hefði verið á móti þvi þá hefði hann aldrei fengið að vita að mér hefði verið boðið þetta. Mestu máli skipti fyrir mig að fólkið sem vinnur hjá félaginu vissi af því að ég væri að koma aftur og vildi jafnframt að ég kæmi. Ég vildi ekki troða neinum um tær. Ef maður kemur aftur til knattspyrnufélags að hjálpa til þá vill maður ekki vera að flækjast fyrir neinum.



Þú nefndir Brendan. Hefur þú rætt hlutverk þitt við hann og munt þú vinna með honum?

Við munum vinna saman en Brendan stjórnar liðinu agjörlega sjálfur. Ég skipti mér ekkert af því. Ég er hingað kominn til að hjálpa hverjum sem vill þiggja hjálp mína og hann getur ráðfært sig við mig ef hann vill. Ég geri bara það sem mér er sagt eða þá það sem ég er beðinn um og það fyrirkomulag hentar mér fullkomlega.

Þú hefur lýst því hvernig þér leið nú þegar þú ert kominn aftur hingað. En hvað fannst fjölskyldunni þinni og vinum þínum þegar þú sagðir þeim fréttirnar um að þú værir kominn aftur á þinn gamla og góða stað?

Allt þetta fólk hefur ætíð sýnt mér mikinn stuðning og á eftir að gera það áfram og það er ekki síður stolt en ég. Maður kemst ekkert nema að fjölskyldan styðji við bakið á manni og hún hefur sýnt mér mikinn stuðning. Þetta er frábært fyrir hana. Fjölskyldan lifir þó sínu eigin lífi og þarf að sinna sínu. Þetta er jú allt orðið fullorðið fólk en þau gleðjast fyrir hönd pabba síns. Mamma þeirra er heldur ekkert óánægð!


Stuðningsmennirnir hafa glaðst yfir endurkomu þinni til félagsins eftir að fréttin um hana birtist. Hver eru skilaboð þín til þeirra í dag?

Ég vil auðvitað þakka þeim kærlega fyrir fyrir þann stuðning sem ég hef orðið var við og ég kann vel að meta allt sem þeir hafa gert fyrir mig. Mestu skiptir þó að þeir fylki sér að baki Brendan og liðinu. Þeir verða að styðja Brendan og liðið því þegar öllu er á botninn hvolft þá skiptir það alla mestu. Því meiri sem stuðningurinn verður því sigursælli verðum við.

Kenny Dalglish er kominn aftur heim. Kóngurinn er þar sem hann á heima. Á Anfield!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan