| Sf. Gutt

Spáð í spilin

 

                                                                                   Liverpool v Crystal Palace

Kóngurinn er kominn enn á ný aftur heim á Anfield ! Hvað væri betra til að fanga endurkomu hans en að komast í efsta sæti deildarinnar? Ég veit ekki um neitt! Mér fannst ekki spurning um að fá Kenny aftur heim á Anfield á einhverjum tímapunkti. Eigendunum fannst rétt að láta hann hætta störfum vorið 2012 og það eftir að hann vann Deildarbikarinn. Þegar hann yfirgaf félagið þá tjáðu allir aðilar sig um að engum dyrum væri lokað og nú er meistarinn aftur kominn. Nú til ráðgjafar stjórn félagsins og öðrum þeim sem vilja þiggja hollráð hans.

En hvað sem um endurkomuna má segja þá bíður næsti leikur alltaf. Liverpool á leik í dag, við Crystal Palace, og sigur getur komið liðinu á topp deildarinnar. Í síðasta mánuði beið svipað verkefni. Liverpool átti þá leik við Southampton á heimavelli og lakasti leikur leiktíðarinnar leit dagsins ljós. Leikmenn byrjuðu alltof rólega, voru hver öðrum slakari og hvorki gekk né rak. Gestirnir gengu á lagið og unnu óvæntan sigur. Liverpool rétti úr kútnum um síðustu helgi og vann sannfærandi útisigur í Sunderland. Vonandi nær liðið að fylgja þeim sigri eftir í dag.

Luis Suarez var frábær um síðustu helgi og það var gaman að sjá lipra samvinnu hans og Daniel Sturridge í sókninni. Þeir voru óviðráðanlegir, skoruðu öll mörkin og samvinna þeirra lofar sannarlega góðu fyrir það sem eftir er leiktíðar. En í dag verða leikmenn Liverpool, þar með taldir Luis og Daniel, og allir hinir að sýna að þeir geti ráðið við leik sem liðið á að vinna á pappírunum. Það tókst nefnilega ekki um daginn. Leikir hafa aldrei unnist á pappír en nú gerir hver einasti stuðningsmaður Liverpool skýlausa kröfu um sigur og toppsæti. Já, það hefur ekkert breyst frá því Kenny lék með liðinu! Sigur og toppsæti var þá krafa í hverjum einasta leik og nú er sama krafa uppi. Toppsætið er kannski ekki alltaf í boði en nú er það sannarlega innan seilingar. Liverpool fer á kostum og vinnur 4:0. Kenny fylgist með úr stúkunni og sér þá Luis Suarez, Daniel Sturridge, Steven Gerrard og Jordan Henderson skora. Liverpool fer á toppinn. Annað er einfaldlega ekki í boði!

YNWA





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan