| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

 
Á morgun mæta sunnlendingarnir í Southampton á Anfield. Liverpool mætir til leiks ósigrað í 13 leikjum í röð í deild og bikar.  Síðasta liðið til að leggja okkar menn var einmitt Southampton.

Það var í marsmánuði síðast liðnum sem dýrlingarnir frá Southampton lögðu Liverpool 3-1 á St. Mary´s. Síðan þá hefur Liverpool leikið 13 leiki í röð í deild og bikar án þess að bíða ósigur. Mark okkar manna í leiknum í mars skoraði Philippe Coutinho. Hann verður illu heilli fjarri góðu gamni á morgun, vegna meiðslanna sem hann hlaut í leiknum gegn Swansea á mánudagskvöld. 

Leikurinn í mars var líklega einn allra slappasti leikur sem Liverpool spilaði á síðustu leiktíð. Brad Jones stóð vaktina í markinu og fékk á sig þrjú mörk, en var þrátt fyrir það einn skásti maður liðsins í leiknum. Það er vonandi að menn komi til leiks á morgun minnugir þess hversu illa andleysið lék þá í mars.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Brendan Rodgers stillir upp liðinu á morgun. Daniel Agger er tæpur vegna meiðsla og það verður að teljast líklegt að Martin Skrtel og Kolo Toure verði miðverðir. Sérstaklega í ljósi þess að Mamadou Sakho var ekkert allt of sannfærandi í sínum fyrsta leik. Skrtel er væntanlega alveg öruggur með byrjunarliðssæti eftir góða frammistöðu í síðustu tveimur leikjum og Rodgers hefur ausið lofi yfir Kolo Toure, sem hefur farið afar vel af stað með okkar mönnum.

Þá er spurning hvort Martin Kelly kemur inn í hægri bakvörðinn. André Wisdom fyllti skarð Glen Johnson í síðasta leik og Kelly varð að gera sér að góðu að sitja á bekknum. Það verður þó að teljast nokkuð sennilegt að Kelly komist fram fyrir Wisdom í goggunarröðinni þegar hann verður kominn á fulla ferð. 

Þá er ljóst að einhver mun þurfa að fylla skarð Coutinho sem verður að öllum líkindum frá í 6 vikur eftir útreiðina sem hann fékk hjá Ashley Williams á mánudaginn. Valið mun væntanlega standa milli Iago Aspas og Raheem Sterling, en auðvitað koma fleiri til greina svo sem Luis Alberto, Joe Allen eða Jordan Ibe. Þess má geta að Sterling er ábyggilega spilandi kátur í dag, því dómstóll í Liverpool úrskurðaði hann núna eftir hádegið saklausan af meintri líkamsárás á fyrrum kærustu sína í ágústmánuði.

Þótt Southampton hafi sigrað síðustu viðureign liðanna nokkuð örugglega er sagan svo sannarlega okkar mönnum í vil. Liðin hafa alls mæst 93 sinnum í öllum keppnum. Liverpool hefur unnið 46 sinnum og Southampton 26 sinnum. 21 leikur hefur endað með jafntefli. 

Það eru tæp 10 ár síðan Southampton sigraði okkar menn síðast á Anfield. Það var í desember 2003, en þá lá Liverpool 1-2. Mark okkar manna í þeim leik gerði Emile Heskey. 

Síðast þegar liðin mættust á Anfield, í desember 2012, fóru okkar menn með sigur af hólmi, 1-0. Sigurmarkið skoraði Daniel Agger með laglegum skalla. 

Það eru sjálfsagt fáir knattspyrnuunnendur jafn meðvitaðir um það og stuðningsmenn Liverpool, að sagan gefur manni ekkert þegar á hólminn á komið. Ég bind samt miklar vonir við það að okkar menn haldi áfram á þeirri ágætu braut sem liðið er á þessa dagana og landi sigri á morgun. Sigri sem í raun ætti að vera skyldusigur, en er það því miður alls ekki. 

Ég held að það væri alls ekki svo vitlaust hjá Brendan Rodgers að rifja leik liðanna frá því mars rækilega upp. Frammistaða Liverpool í þeim leik var til háborinnar skammar og ég hreinlega neita að trúa að menn falli í það ömurlega andleysisfar sem liðið festist í þann daginn.

Ég leyfi mér að vera hæfilega bjartsýnn og spái 2-0 sigri.

YNWA!




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan