| Sf. Gutt

Toppsigur og toppsæti í anda Shankly!!!

Liverpool skaust á topp deildarinnar með því að leggja Englandsmeistara Manchester United að velli 1:0 á Anfield. Leikmenn Rauða hersins léku og unnu leikinn í anda Bill Shankly! Hver einasti maður lagði allt í sölurnar og uppskeran var eftir því!

Andrúmsloftið var rafmagnað fyrir leikinn og þjóðsöngurinn var sunginn af miklum þunga. Því næst var aldarminning Bill Shankly haldin hátíðleg með því að áhorfendur og leikmenn beggja liða klöppuðu í eina mínútu. Mögnuð stund sem gaf tóninn fyrir draumabyrjun Liverpool!

Liverpool komst yfir á 4. mínútu. Jordan Henderson pressaði þá hart á Ashley Young rétt við vítateig United. Ashley missti boltann sem barst á Daniel Sturridge sem náði skoti sem var bjargað í horn. Steven Gerrard tók hornið frá hægri. Daniel Agger stökk hæst og skallaði að marki. Tveir varnarmenn United voru við marklínuna og hefðu líklega bjargað en Daniel Sturridge náði að breyta stefnu boltans með höfðinu og stýra honum í markið af stuttu færi framhjá þeim sem voru til varnar. Algjörlega magnað! Allt sprakk á Anfield þegar boltinn hafnaði í markinu og hávaðinn gríðarlegur þegar markinu var fagnað. Bill Shankly fagnaði líka á góðum stað!

Rétt eftir að Liverpool fagnaði markinu var Robin Van Persie ágengur við mark Liverpool eftir að ekki náðist að hreinsa aukaspyrnu í burtu en hjólhestaspyrna hans fór yfir markið. Á 10. mínútu náði svo Danny Welbeck skoti utan teigs en Simon Mignolet varði auðveldlega. Liverpool sneri vörn í sókn og hinu megin skaut Steven Gerrard að marki en David De Gea varði af öryggi. 

Gríðarleg barátta var fram að leikhléi. Liverpool hafði undirtökin og meistararnir náðu aldrei vel saman. Færin voru ekki mörg en á meðan Liverpool var yfir skipti það ekki máli!

Það var ekki síður hart barist í síðari hálfleik en marktækifæri voru fá. Manchester United hóf hálfleikinn með látum en gekk illa að skapa færi. Vörn Liverpool var alveg frábær og Simon Mignolet var öryggið uppmálað fyrir aftan hana. Eftir klukkutíma náði þó Ashley skoti sem fór í Glen Johnson við markteiginn. Simon hefði örugglega varið en vel gert hjá Glen.

Þegar stundarfjórðungur var skaut varamaðurinn Luis Nani óvæntu þrumuskoti utan vítateigs sem Simon gerði vel í að verja. Liverpool gekk illa að ná almennilegum sóknum og það var alltaf fyrir hendi að eitt mark myndi ekki duga. Glen varð að fara af velli þegar ellefu mínútur voru eftir. Hann meiddist eftir að hafa fórnað sér í mikla og harða tæklingu. 

Varamaðurinn Javier Hernandez lagði upp gott færi fyrir Robin á 87. mínútu en Hollendingurinn hitti ekki markið. Spennan var óbærileg undir lokin. United ógnaði ekki meira en það mátti ekkert út af bera. Loksins í viðbótartíma, sem var í lengra lagi, átti Liverpool markskot. Raheem Sterling, sem kom inn á sem varamaður, rauk fram í skyndisókn og þrumaði að marki utan vítateigs en David sló boltann yfir. Rétt á eftir gekk allt af göflunum af fögnuði. Liverpool hafði lagt Manchester United að velli í anda Bill Shankly!

Liverpool: Mignolet, Johnson (Wisdom 79. mín.), Skrtel, Agger, Enrique, Gerrard, Leiva, Henderson, Aspas (Sterling 60. mín.), Coutinho (Alberto 84. mín.) og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Jones, Ibe, Kelly og Flanagan.

Mark Liverpool: Daniel Sturridge (4. mín.).

Gul spjöld: Iago Aspas og Lucas Leiva.

Manchester United: De Gea, Jones (Valencia 37. mín.), Ferdinand, Vidic, Evra, Carrick, Cleverley, Young (Nani 63. mín.) , Giggs (Hernandez 73. mín.), Welbeck og Van Persie. Ónotaðir varamenn: Lindegaard, Anderson, Smalling og Buttner.

Gul spjöld: Tom Cleverley, Robin van Persie, Michael Carrick og Ashley Young.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.411.
 
Maður leiksins: Martin Skrtel. Það voru margir um hituna enda barðist hver einasti leikmaður upp á líf og dauða. Martin var frábær í vörninni og framganga hans mögnuð. Sérstaklega ef haft er í huga að hann kom æfingalaus inn í liðið eftir meiðsli. Slóvakinn brást ekki eins og einhverjir óttuðust kannski!  

Brendan Rodgers: Í dag sást vel að sigurviljinn sem við erum að þróa og ala með okkur fer vaxandi. Samstaðan sást vel og hún á eftir að skipta máli fyrir okkur í ár. Þetta voru framúrskarandi úrslit og við lékum varnarleikinn gríðarlega vel.

                                                                                Fróðleikur.

- Liverpool komst með sigrinum í efsta sæti deildarinnar!

- Daniel Sturridge skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni.

- Liverpool hefur unnið alla deildarleiki sína 1:0 og Daniel hefur skorað öll mörkin!

- Daniel skoraði á 24. afmælisdegi sínum.

- Simon Mignolet hefur enn ekki fengið á sig mark í deildinni.

- Liverpool vann Manchester United eftir þrjá tapleiki gegn þeim í röð!

- Bill Shankly hefði orðið 100 ára á morgun!

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers af vefsíðu BBC.

Hér má sjá myndskeið af því þegar Bill Shankly var minnst fyrir leikinn.
 
Hér má sjá myndir af ferli Bill Shankly á vefsíðu BBC.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan