| Sf. Gutt

Verðum að gera þeim lífið leitt

Steven Gerrard segist hafa trú á því að Liverpool geti komið á óvart í kvöld, þegar liðið mætir Real Madrid á Anfield í Meistaradeildinni.

,,Við sýndum það í fyrra að við getum staðið í hvaða liði sem er. Að maður tali ekki um á Anfield þar sem stemningin getur orðið hreint ólýsanleg í leikjum sem þessum", segir Gerrard í viðtali við Liverpoolfc.com. 

,,Við höfum ekki verið nógu góðir það sem af er þessari leiktíð, en ég hef trú á því að menn stígi upp í kvöld og sýni úr hverju þeir eru gerðir. Við höfum sýnt það áður að við getum komið á óvart þegar á reynir."

,,Stundum finnst manni að þeim mun betri sem andstæðingurinn er, því betur spilum við. Hvað svo sem veldur því. Vonandi verður það uppi á teningnum í kvöld. Það þarf allavega ekkert að mótivera menn sérstaklega fyrir leiki eins og gegn Real Madrid. Við verðum alveg örugglega tilbúnir."

,,Leikurinn í kvöld verður erfiður. Það er enginn vafi. Real Madrid er eitt stærsta og besta lið í heimi og margir af allra bestu leikmönnum heims eru í þeirra röðum. Við berum mikla virðingu fyrir þeim, en við erum óhræddir. Ef maður mætir hræddur í leik eins og þennan þá getur maður alveg eins sleppt því að mæta. Lið í þessum gæðaflokki ganga á lagið og valta yfir þig ef þú ert ekki rétt innstilltur fyrir leikinn."

,,Ég er í skýjunum með að við getum aftur boðið upp á Meistaradeildar leiki á Anfield. Það er frábært fyrir mig sjálfan, liðsfélaga mína, stuðningsmennina og ekki síst Brendan Rodgers og þjálfarateymið. Við eigum öll skilið að fá að upplifa Meistaradeildina. Við lögðum á okkar mikla vinnu á síðasta tímabili, einmitt til þess að fá að mæta liðum sem þessu á Anfield. Við getum gert kvöldið í kvöld að sérstöku kvöldi í Liverpool sögunni."

,,Þegar við mættum Real Madrid 2009 á Anfield þá var lið þeirra ekki síður stjörnum prýtt, en við gáfum þeim aldrei færi á að spila sinn leik. Við börðumst um hvern bolta og höfðum fullan Anfield til að styðja okkur með ótrúlegum hávaða. Barátta okkar og stuðningsmannanna gerði þeim lífið leitt frá fyrstu mínútu. Þannig þarf þetta líka að vera í kvöld, ef við ætlum að gera þetta að eftirminnilegu kvöldi"

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan