| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v Stoke City

Seinni sláttur stendur víða yfir og ber eru að verða æt út um alla móa. Það er komið að fyrstu umferð í efstu deild á Englandi. Rauði herinn er tilbúinn í baráttuna og fyrsta orrustan fer einmitt fram í heimavígi hersins þess er við fylgjum í blíðu og stríðu. Nú er að duga eða drepast!

Fyrir tveimur árum var Liverpool í sömu stöðu undir stjórn Kenny Dalglish og Sunderland var mótherjinn. Miklar væntingar voru bundnar við að Liverpool gerði góða hluti í fyrsta heimaleiknum en niðurstaðan var 1:1 jafntefli. Tréverkið bjargaði Svartköttum og hæpinn dómur rændi Liverpool sigurmarki. 


Fyrir einu ári mætti Liverpool West Bromwich Albion á útivelli í fyrstu umferð. Allt gekk á afturfótunum hjá Liverpool og lærisveinar Steve Clarke, fyrrum þjálfara Liverpool, unnu öruggan sigur 3:0. Í kjölfarið gekk illa hjá mönnum Brendan Rodgers að ná krafti í leik sinn og svo var lengi fram eftir hausti. 

Á þessu má sjá að það skiptir miklu að ná góðri byrjun. Það er svo sem ekkert fengið með þremur stigum í fyrsta leik ef framhaldið gengur ekki í samræmi við frumraunina. En það er alltaf gott að vinna þann fyrsta því sigur gefur byr í seglin og Liverpool þarf sannarlega á því að halda eftir svolítið undarlegt sumar. Allt gekk vel framan af og fjórir menn náðust snarlega í hús. 

En allt ruglið í kringum Luis Suarez var alveg með ólíkindum. Hann ætlaði sér greinilega að komast frá Liverpool með öllum tiltækum ráðum. Þegar þetta er ritað er svo sem ekki útilokað að hann fari þó svo að honum hafi verið leyft að æfa með félögum sínum á nýjan leik í morgun. Það er alveg hægt að rökstyðja að Luis sé einn af fimm bestu sóknarmönnum í heimi. Frá því sjónarmiði er hann ómissandi en enginn er stærri en félagið okkar og það má aldrei gelymast!!!

 

Hvað sem segja má um umrót sumarsins þá gekk liðinu vel í æfingaleikjunum. Sex sigrar unnust í sjö leikjum og liðið var oft býsna sannfærandi en nú er að sjá hvernig til tekst á móti Stoke City. Mark Hughes stýrir nú þar eftir að skipt var um mann í brúnni. Tony Pulis var beðinn um að láta af störfum eftir farsælt starf. Að minnsta kosti hélt hann liðinu uppi í efstu deild eftir að það komst upp og kom því í Evrópukeppni í eina leiktíð. Mikið var deilt á leikaðferðina sem Tony lagði upp og nú er að sjá hvort Mark breytir til. Liverpool gekk oft bölvanlega að fást við Stoke þegar Tony lagði línurnar og á síðustu leiktíð var ekkert mark skorað hjá liðunum í Liverpool þegar Luis lét sig svífa á skammarlegan hátt. Stoke vann svo 3:1 heima en nú er kannski lag að taka Stoke í gegn.

   

Ég held að menn Brendan Rodgers komi sprækir til leiks og hitti vel á gestina sem vonandi verða ekki alveg búnir að ná áttum undir nýrri stjórn. Liverpool gæti ekki byrjað leiktíðina betur og fer á toppinn eftir 3:0 sigur. Steven Gerrard skorar tvö mörk og það fyrra kemur úr vítaspyrnu. Daniel Sturridge opnar svo markareikning sinn. Það er kominn tími á óskabyrjun!! 

YNWA

                                                                                 Vissir þú?

- Liverpool og Stoke City hafa gert 0:0 í tveimur síðustu leikjum sínum á Anfield Road.

- Liverpool hefur ekki unnið Stoke í síðustu fjórum deildarleikjum.

- Liverpool vann síðast heimaleik á fyrsta leikdegi í ágúst 2001. Michael Owen skoraði bæði mörkin í 2:1 sigri á West Ham.

- Þrír fyrrum leikmenn Liverpool eru í liði Stoke. Þetta eru þeir Charlie Adam, Peter Crouch og Jermaine Penant.

Til gamans bjóðum við upp á fyrstu spá Mark Lawrenson en hann spáir eins og mörg undanfarin ár á vefsíðu BBC.

Í sumar hefur allt hjá Liverpool snúist um Luis Suarez og hvort hann veri eða fari. Við heyrum misvísandi fréttir en ég held að aðalatriðið sé að hann vill ekki spila lengur fyrir félagið og það mun ráða niðurstöðu málsins. Í herbúðum félagsins hefur verið unnið nokkuð vel með málið og þaðan koma skilaboð um að hann fari hvorki eitt eða neitt. En núna vitum við ekki hvort sú afstaða sé tilkomin vegna þess að þeir vilja fá hærra verð fyrir hann. Vegna þessa alls og vegna þess hversu mikilvægur Luis er fyrir Liverpool er erfitt að spá um gengi liðsins þar til lokað verður fyrir félagskipti og komið í ljós hvort hann fer eða verður um kyrrt. 

Stoke er að hefja tilveru án Tony Pulis en ég held að það verði enginn vandi fyrir Mark Hughes að taka við. Þetta er fínasta starf því allar undirstöður sem Tony reisti eru traustar. Það er ekki hægt að líkja stöðunni við, til dæmis, þegar Sam Allardyce fór frá Bolton. 

The Potters hafa ekki fjárfest mikið hingað til en Mark fær sterkan leikmannahóp í arf og hann ætti að halda liðinu um miðja deild. Ég hugsa að Mark reyni að láta liðið spila aðeins meira léttleikandi en Tony gerði en mestu skiptir að vörnin er sterk. Vandi Tony á síðustu leiktíð var sóknarleikurinn. Vængspilið var ekki eins gott og það hafði verið og það vantað meiri hugmyndir í leik liðsins. Þetta þarf að bæta en Mark er með leikmannahóp sem er bæði sterkur and- og getulega. 

Ég hef á tilfinningunni að fyrsti leikur Úrvalsdeildarinnar verði heldur daufur. Heimavöllurinn mun þó gefa Liverpool nauman sigur.
 
Úrskurður: 1:0.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan