| Sf. Gutt

Sigur í ágóðaleik Steven Gerrard!

Liverpool vann sigur fyrir Steven Gerrard í ágóðaleik fyrir þennan stórkostlega leikmann. Sjálfur lagði hann sitt af mörkum eins og venjulega með því að spila eins og herforingi. Liverpool lagði gríska liðið Olympiakos að velli 2:0 á Anfield Raod þangað sem stuðningsmenn Rauða hersins hópuðust til að hylla Steven og þakka honum fyrir það sem hann hefur lagt af mörkum fyrir félagið okkar.

Steven Gerrard sagði fyrir leikinn að hann hefði ekki áhuga á að leikurinn sinn yrði þýðingarlítill sýningarleikur. Í samræmi við það valdi Brendan Rodgers sterkt byrjunarlið. Oft bjóða þeir sem fá ágóðaleik til sín leikmönnum sem léku með þeim fyrr á árum en Steven bauð aðeins tveimur. Á bekknum voru tveir af bestu vinum hans Jamie Carragher og Robbie Fowler. Í liði grísku meistaranna mátti sjá Carl Menjani sem var um tíma á mála hjá Liverpool. Hann lék þó aldrei með aðalliðinu en síðan hefur hann leikið með ýmsum liðum og landsliði Alsír.

Fyrir leik gekk Steven til leiks í gegnum heiðursvörð leikmanna Liverpool og Olympiakos. Með Steven voru dætur hans þrjár Lilly-Ella, Lexie og Lourdes. Var fyrirliðanum vel fagnað þegar hann gekk út á völlinn sinn í sól og sumaryl.

 

Liverpool hafði undirtökin frá upphafi leiksins og hefði getað komist fyrr yfir en raunin varð á 23. mínútu. Joe Allen skoraði þá af stuttu færi eftir undirbúning Iago Aspas. Segja má að Carl, fyrrum leikmaður Liverpool, hafi átt þátt í markinu en hann átti mislukkaða sendingu sem Liverpool skoraði svo upp úr. Kannski var hann að leggja sitt af mörkum fyrir Steven í tilefni dagsins! 

Nokkrum sekúndum fyrir markið hafði Joe skotið yfir af stuttu færi fyrir opnu færi. Litlu síðar komst Iago í færi en það var varið frá honum skammt frá markinu. Joe hefði svo átt að bæta við marki en hann náði ekki að skalla boltann úr upplögðu færi eftir sendingu frá Steven sem var magnaður í leiknum. Í hvert skipti sem hann fékk boltann skipuðu áhorfendur Steven að skjóta! Hann var þó ekki mjög skotglaður. Staðan var 1:0 í leikhléi.  

Liverpool hafði öll völd áfram eftir hlé. Eftir réttan klukkutíma átti Philippe Coutinho frábæra sendingu inn fyrir á Raheem Sterling sem komst einn í gegn en hann skaut boltanum framhjá. Á næstu mínútu risu áhorfendur á fætur og fögnuðu Jamie Carragher sem kom til leiks á nýjan leik eftir sumarfrí ef svo mætti segja! Luis Suarez kom líka inn á um leið og fékk hlýlegar móttökur.

Jordan Henderson kom inn á um leið og Jamie og Luis og hann skoraði með sinni fyrstu snertingu! Raheem bætti fyrir mistök sín með því að senda góða sendingu á Jordan sem smellti boltanum í markið vinstra megin í teignum. Einhver tók tímann og sagði Jordan hafa verið 12 sekúndur inn á áður en hann skoraði. Frábær innkoma svo ekki sé meira sagt!
 
Á 73. mínútu var risið á fætur til að hylla seinni gestaleikarann. Robbie Fowler var sannarlega vel fagnað þegar hann kom inn á. Um leið kom Luis Alberto inn í sínum fyrsta leik á Anfield. Robbie fékk eitt færi á að skora þegar tíu mínútur lifðu leiks. Hver annar en Steven lagði boltann fyrir hann vinstra megin í vítateignum en varnarmaður komst fyrir skot hans sem hugsanlega hefði ratað í markið og þá hefði nú allt brjálast!

Þegar sex mínútur voru eftir skipti Steven við Jay Spearing og var hylltur af áhorfendum. Aftur var hann hylltur eftir að leiknum lauk en þá gekk meistarinn heiðurshring á velllinum þar sem hann hefur svo oft sýnt frábær tilþrif. Hann stóð sig stórvel í dag og átti stóran þátt í góðum sigri Liverpool sem hefur nú unnið alla fimm æfingaleiki sína það sem af er sumri!

Liverpool: Mignolet (Jones 84. mín.), Johnson, Toure (Carragher 61. mín.), Agger, Enrique, Leiva, Gerrard (Spearing 84. mín.), Sterling (Fowler 73. mín.), Allen (Henderson 61. mín.), Coutinho (Alberto 73. mín.) og Aspas (Suarez 61. mín.). Ónotaðir varamenn: Coates, Downing, Borini, Kelly, Skrtel, Ibe og Wisdom.

Mörk Liverpool: Joe Allen (23. mín.) og Jordan Henderson (62. mín.).

Olympiakos: Megveri, Salino (Papazoglou 45. mín.), Fejsa, Menjani (Manolas 59. mín.), Holebas, Campbell (Babis 76. mín.), Samaris (Weiss 45. mín.), Dominguez (Machado 59. mín.), Maniatis (Diamantakos 76. mín.), Siovas (Papadopoulos 76. mín.) og Mitroglou (Saviola 59. mín.). Ónotaður varamaður: Roberto.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.362.

Maður leiksins: Steven Gerrard!!!!!

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Liverpool Echo.

Hér eru myndir frá hátíðarkvöldverði Steven Gerrard.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan