| Sf. Gutt

Nokkuð breytt byrjunarlið

Brendan Rodgers segist ætla að gera nokkrar breytingar á byrjunarliðinu gegn Real Madrid í kvöld, frá leiknum gegn QPR á sunnudaginn. Meiðsli eru enn að plaga nokkra leikmenn.

Á blaðamannafundi nú í morgun fór Brendan Rodgers yfir málin fyrir stórleikinn gegn Real Madrid í kvöld. Blaðamenn Liverpool Echo lesa það út úr orðum Rodgers að líklegt verði að teljast að Alberto Moreno, Philippe Coutinho og Joe Allen muni allir byrja leikinn í kvöld.

Mamadou Sakho er enn frá vegna meiðsla og þessvegna er líklegt að Martin Skrtel og Dejan Lovren haldi stöðu sinni í miðju varnarinnar, þrátt fyrir misjafna frammistöðu að undanförnu. Glen Johnson heldur væntanlega einnig sæti sínu, en samkvæmt Liverpool Echo er mjög líklegt að Alberto Moreno taki sæti Jose Enrique í vinstri bakverðinum.

,,Við erum enn að glíma við smá meiðslavandræði. Sakho er ennþá frá og Lucas var ekki í leikstandi um helgina, það er ekki útséð um að hann geti verið í hópnum í kvöld. Þá er Sturridge vitanlega frá, sem er auðvitað bagalegt. Moreno er hinsvegar í góðu standi"

,,Vörnin og markvörðurinn hafa sætt mikilli gagnrýni að undanförnu, en það má ekki gleyma því að við verjumst sem lið. Það bera allir ábyrgð á varnarleiknum. Við áttum í erfiðleikum gegn QPR sem spilaði 4-4-2 á litlum velli og beitti löngum sendingum. Leikurinn í kvöld mun spilast allt öðruvísi. Boltinn verður meira niðri á jörðinni, sem hentar okkur betur."

Liverpool Echo telur líklegt að Joe Allen og Philippe Coutinho muni verða á miðjunni með Steven Gerrard, en báðir komu inn sem varamenn gegn QPR.

,,Coutinho var frábær þegar hann kom inná í leiknum á sunnudaginn. Hann var kraftmikill og hefur auðvitað mikla hæfileika. Hann skoraði frábært mark og var mjög skapandi. Innkoma hans og Joe Allen breytti miklu fyrir okkur. Ástæðan fyrir því að Coutinho byrjaði ekki leikinn var sú að hann hafði verið á löngu ferðalagi með landsliði Brasilíu og var þreyttur."

Blaðamenn Liverpool Echo eiga ekki von á því að Rodgers geri breytingar á fremstu mönnum, að minnsta kosti gaf Rodgers það sterklega í skyn að Mario Balotelli byrjaði leikinn, þrátt fyrir að hann hafi ekki sýnt merkilega takta um helgina.

,,Mario er eins og aðrir leikmenn æstur í að fá að spila leik eins og þann sem við eigum fyrir höndum í kvöld. Hann hefur kannski ekki náð sér alveg á strik, en hann kom sér þó nokkrum sinnum í færi um helgina, án þess að skora. Hann er kominn á blað í Meistaradeildinni fyrir okkur og vonandi nær hann að bæta fleirum við í kvöld."

,,Aðaláherslan hjá okkur í vetur verður að standa okkur vel í Úrvalsdeildinni, en það breytir því ekki að við viljum að sjálfsögðu standa okkur vel á öllum vígstöðvum. Við teljum að við séum með nógu gott lið til þess að komast upp úr riðlinum í Meistaradeildinni og við verðum mjög vonsviknir ef það tekst ekki. Við höfum lengi barist fyrir réttinum til að fá að spila í þessari sterkustu keppni í heimi. Nú er það okkar að sýna að við eigum heima þar."



 

  

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan