| Sf. Gutt

Spáð í spilin

Þá er landsleikjahrota að baki en við tekur páskahrotan. Reyndar er nú bara leikin ein umferð í efstu deild og öðruvísi mér áður brá því fyrr á árum var ein umferð leikin laugardag fyrir páska og svo önnur á öðrum degi páska. En hvernig sem það er þá má segja að lokaspretturinn í ensku knattspyrnunni á þessari leiktíð hefjist núna um helgina.
 
Liverpool steinlá í síðasta leik þegar liðið tapaði 3:1 fyrir Southampton áður en landsleikjahlé hófst. Það tap kom með svipuðum hætti og eitt versta tap leiktíðarinnar sem var einmitt fyrir Aston Villa stuttu fyrir jól. Liverpool hafði þá, eins og um daginn fyrir leikinn við Southampton, náð góðri rispu og átt leik fyrir höndum sem flestir töldu að liðið ætti að vinna af öryggi. Villa gerði sér lítið fyrir og vann 1:3 og Dýrlingarnir endurtóku leikinn á dögunum. Í báðum þessara leikja kom óstöðugleiki Liverpool vel í ljós. Reyndar voru úrslitin á móti Villa stórfurðuleg miðað við gang leiksins en Liverpool átti ekkert skilið í Southampton.

Liverpool mætir heimamönnum á Villa Park í hádeginu á páskadag og eins gott að páskasteikin verði tilbúin í fyrra fallinu á bæjum stuðningsmanna Rauða hersins! Fyrir rúmum mánuði hefðu stuðningsmenn Liverpool líklega hrósað happi yfir því að eiga leik á móti Aston Villa fyrir höndum en Paul Lambert hefur hert sína menn og nú hefur liðið hans unnið þrjá af síðustu fimm leikjum. Fyrir þessa góðu ripsu hafði liðið aðeins unnið fjóra af 25 leikjum og fallið úr báðum bikarkeppnunum á fjórum dögum fyrir liðum úr neðri deildum. Það verður því ekki annað sagt en að Paul hafi gert góða hluti og eins má hæla eigendum Aston Villa fyrir að styðja hann í starfi. Reyndar er enn ekki útséð um að Paul stjórni liðinu sínu í efstu deild á næstu leiktíð en veruleg batamerki eru á því.

Brendan Rodgers hefur brýnt sína menn til að enda keppnistímabilið af eins miklum krafti og hægt er. Leikmenn eru allir, utan þrír, leikfærir og nú væri vit í að vinna rest og sjá hvort Evrópusæti næst. Liverpool þarf nefnilega mjög á því að halda að leika í Evrópukeppni. Það hafa verið verðið töluverð batamerki á leik Liverpool og ekkert lið hefur skorað fleiri deildarmörk í efstu deild frá áramótum. Alls hafa leikmenn Liverpool fagnað 26 deildarmörkum á árinu og verður það að teljast magnað! Á móti kemur svo að Aston Villa hefur ekki haldið hreinu frá því fyrir jól. Ætti að vera góðs viti um mörk frá Rauða hernum!

Liverpool hefur verið í vandræðum með Aston Villa upp á síðkastið og aðeins unnið einn af síðustu fjórum leikjum. Það var 0:2 sigur á síðasta keppnistímabili. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá Liverpool öðrum slikum sigri. Vafalaust situr tapið á Anfield enn í leikmönnum Liverpool og páskasigur myndi verða sannkallað gleðiefni enda páskarnir gleðihátíð!

YNWA

Hér má sjá leikmenn Liverpool æfa á Melwood í dag.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan