| Grétar Magnússon

Sigur í fyrsta leik Brendan Rodgers

Brendan Rodgers vann sigur í sínum fyrsta alvöru leik með Liverpool en varla er hægt að segja að hann hafi verið sannfærandi.  Sigur er þó sigur og leikmenn eru jú flestir nýbyrjaðir að æfa að nýju eftir sumarleyfi.

Leikurinn var einnig merkilegur fyrir þær sakir að þetta var 700. leikur Jamie Carragher fyrir félagið og var hann fyrirliði í tilefni af því.  Glen Johnson spilaði einnig í fyrsta sinn á þessu tímabili þegar allir leikir eru taldir með og kom það nokkuð á óvart, hann lék sinn 100. leik fyrir Liverpool.  Lucas Leiva var einnig kynntur til leiks en hann hafði eins og menn vita ekki spilað fyrir félagið síðan í nóvember á síðasta ári. Brendan Rodgers stillti upp nokkuð sterku liði í sínum fyrsta leik, Fabio Borini spilaði í fyrsta sinn og Joe Cole var í byrjunarliðinu meðal annara sterkra leikmanna.

Heimamenn í Gomel voru í raun betri aðilinn í leiknum og voru klaufar að skora ekki mark.  Það má kannski segja að saga síðasta tímabils hafi átt sér stað í þessum leik en nú var það Liverpool sem skoraði eina mark leiksins þrátt fyrir að vera slakari aðilinn.

Gomel byrjuðu betur í leiknum og eftir aðeins tvær mínútur skeiðaði Igor Voronkov fram völlinn, skaut að marki og boltinn strauk þaknetið í markinu hjá Brad Jones.  Áfram héldu heimamenn að sækja og Martin Skrtel gerði vel í að komast fyrir skot frá Artur Liavitski er hann skaut að marki rétt fyrir utan teig.

Liverpool menn áttu þó sín færi og skömmu síðar náði Borini skoti að marki eftir hornspyrnu frá Downing en boltinn fór framhjá nærstönginni.  Glen Johnson skallaði svo aukaspyrnu frá Gerrard yfir markið. Á 22. mínútu meiddist Joe Cole og Rodgers því nauðbeygður til að gera sína fyrstu skiptingu, hann setti traust sitt á Raheem Sterling og setti unglinginn því inná.

Skömmu síðar hefðu heimamenn átt að skora er Dzmitry Platonov lék á Gerrard og sendi hættulega sendingu fyrir markið þar sem Voronkov var mættur á markteig, sem betur fer fyrir gestina hitti hann ekki markið.  Alexandra Alumona fékk svo fínt færi inní vítateig eftir hornspyrnu en hann skaut yfir.  Alumona var svo aftur á ferðinni er hann átti skot að marki sem Jones varði og skömmu eftir það þrumaði hann í stöngina af 20 metra færi.

Sex mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks átti svo Alumona enn eitt færið er hann var sterkari en Skrtel í návígi en Jones gerði vel í að verja frá honum.  Í næsta færi heimamanna var það Jamie Carragher sem komst fyrir skot sem stefndi í netið en þar var Alumona enn og aftur á ferðinni eftir sendingu frá Platonov.  Stuðningsmenn Gomel, sem héldu uppi góðri stemmningu á vellinum allan leikinn voru því nánast ekki að trúa sínum eigin augum er flautað var til hálfleiks því liðið þeirra hefði jú átt að vera með forystu í hálfleik.

Rodgers hefur væntanlega látið sína menn aðeins fá orð í eyra í hálfleiksræðu sinni því ekki var vanþörf á því.  Hann þurfti svo að nota aðra skiptingu í hálfleiknum því Martin Kelly kom inná fyrir Glen Johnson. En áfram voru það Gomel menn sem voru sterkari aðilinn eftir að flautað var til síðari hálfleiks.  Platonov fékk sendingu innfyrir vörnina og var kominn einn í gegn.  Brad Jones kom út á móti og Platonov skaut boltanum framhjá honum en sem betur fer var snertingin föst og boltinn fór útaf við endalínuna.

Smá líf komst í gestina og Jose Enrique átti sendingu innfyrir á Borini sem var kominn í þröngt færi út við endalínu, hann náði þó skoti að marki sem markmaður Gomel varði nokkuð auðveldlega.  Vladzimir Bushma skallaði svo aukaspyrnu frá Gerrard afturfyrir sig inní vítateig og fór boltinn rétt framhjá stönginni.

Á 65. mínútu voru heimamenn svo í sannkölluðu dauðafæri.  Siarhei Kazeka skaut fyrir utan vítateig og boltinn hafnaði í stönginni.  Boltinn barst til Alumona sem skaut að marki en hann hitti boltann illa en skotið barst til Platonov sem var aleinn og óvaldaður inná vítateig og þurfti hann í raun bara að renna boltanum í autt markið þar sem Jones hafði farið út á móti Alumona.  En Platonov hitti ekki markið á einhvern óskiljanlegan hátt þegar auðveldara virtist vera að skora.

Tveimur mínútum síðar refsuðu svo gestirnir grimmilega.  Stewart Downing fékk boltann út til hægri við vítateig Gomel, hann lék aðeins áfram og náði skoti sem hafnaði neðst í markhorninu.  Margir muna kannski eftir fyrsta leik Downing fyrir félagið í fyrra en þar þrumaði hann í þverslá, hann átti svo ótalmörg skot í tréverkið á leiktíðinni en vonandi er þetta merki um það sem koma skal hjá Downing eftir vægast sagt vonbrigða tímabil í fyrra.

Eftir markið reyndu heimamenn að jafna en án árangurs og því var fyrsti sigur Brendan Rodgers sem stjóri Liverpool í höfn.



Gomel:  Bushma, Kirilchik, Klimovich, Voronkov, Matveichik, Kashevsky, Kozeka (Timoshenko, 90. mín.), Levitskiy (Demidovich, 84. mín.), Nowak (Lipatkin, 74. mín.), Alumona og Platonov.  Ónotaðir varamenn:  Sakovich, Palomeque, Yevseyenko og Sheryakov.

Gul spjöld:  Klimovich og Alumona.

Liverpool:  Jones, Johnson (Kelly, 46. mín.), Jose Enrique, Carragher, Skrtel, Gerrard, Spearing, Cole (Sterling, 23. mín.), Henderson (Leiva, 66. mín.), Downing og Borini.  Ónotaðir varamenn:  Gulacsi, Robinson, Adam og Shelvey.

Mark Liverpool:  Stewart Downing 67. mín.

Gul spjöld:  Brad Jones og Jordan Henderson.

Maður leiksins:  Jamie Carragher verður fyrir valinu að þessu sinni en þó að mestu leyti fyrir það að hann var að spila sinn 700. leik fyrir félagið.  Hann stóð þó auðvitað fyrir sínu í vörninni og hélt markinu hreinu ásamt félögum sínum.

Brendan Rodgers:  ,,Ég er ánægður og þetta var mjög gott próf fyrir okkur.  Gomel eru komnir vel inní sitt tímabil og því var þetta mjög gott uppá leikæfinguna að gera, en leikurinn var einnig góður heilt yfir.  Það var mjög mikilvægt að fá góða byrjun og þegar maður vinnur skiptir það eitt í raun máli.  Ég var ánægður fyrir hönd leikmannana."

,,Það var virkilega sérstakt fyrir mig að stjórna mínum fyrsta alvöru leik.  Það hefði ekki skipt máli hvar leikurinn fór fram, hvort sem það hefði verið í Hvíta-Rússlandi eða Brasilíu, það er heiður fyrir mig að stjórna þessu félagi og ég er stoltur yfir því að leiða þessa leikmenn og vera knattspyrnustjórinn þeirra.  Vonandi getur þetta verið byrjun á fleiri sigrum í framtíðinni og góðum leikjum fyrir okkur."

Fróðleikur:

- Þetta var 140. Evrópuleikur Liverpool.

- Brendan Rodgers stjórnaði sínum fyrsta alvöru leik hjá Liverpool.

- Jamie Carragher spilaði leik númer 700 fyrir félagið.

- Jamie spilaði fyrst með aðalliðinu í janúar árið 1997 í Deildarbikarleik gegn Middlesboro.

- Hann hefur skorað aðeins fimm mörk í þessum 700 leikjum.

- Glen Johnson spilaði leik númer 100 fyrir félagið.

- Hann hefur skorað einu marki meira en Jamie eða sex mörk alls fyrir félagið.

- Fabio Borini spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið.

- Lucas Leiva lék sinn fyrsta leik frá því í nóvember á síðasta ári en hann er að koma til baka eftir meiðsli.

Hér má
 sjá myndir úr leiknum af Liverpool.com.

Hér má sjá myndband af marki Stewart Downing.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan