| Heimir Eyvindarson

Dirk Kuyt kveður

Dirk Kuyt er genginn til liðs við tyrkneska félagið Fenerbahce. Talið er að Liverpool hafi fengið rúma milljón sterlingspunda fyrir Hollendinginn.

Dirk Kuyt, sem verður 32 ára í júlí, gekk til liðs við Liverpool árið 2006 og varð fljótlega fastur maður í liðinu. Hann lék 285 leiki með Liverpool og skoraði í þeim 71 mark. Þar af 51 í Úrvalsdeildinni.
 

Dirk vann einn titil á ferli sínum með Liverpool en hann varð Deildarbikarmeistari núna á leiktíðinni. Hann kom þá inn á sem varamaður í úrslitaleiknum á móti Cardiff. Hann skoraði seinna mark Liverpool og kom liðinu í 2:1 í framlengingu. Cardiff jafnaði í 2:2 og því þurfti vítaspyrnukeppni. Dirk skoraði í vítaspyrnukeppninni og kom Liverpool í gang eftir að Steven Gerrrard og Charlie Adam höfðu ekki náð að skora úr tveimur fyrstu spyrnum Liverpool.  

Eftir að Kenny Dalglish tók við liðinu fækkaði framkomum Hollendingsins í byrjunarliðinu og má segja að það hafi legið nokkuð ljóst fyrir um dálitla hríð að hann vildi fara frá Liverpool. Ráðning Brendan Rodgers virðist ekki hafa breytt neinu þar um.

Dirk Kuyt heldur nú til Tyrklands til að spila með Fenerbahce. Heimildir herma að Dirk hafi skrifað undir þriggja ára samning við tyrkneska félagið.

Liverpoolklúbburinn á Íslandi óskar Dirk Kuyt velfarnaðar á nýjum slóðum og þakkar honum dygga þjónustu við félagið.
 
Hér eru allar helstu upplýsingar um Dirk Kuyt á LFCHISTORY.NET.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan