| Sf. Gutt

Kenny ókátur við knattspyrnuyfirvöld

Kenny Dalglish lét knattspyrnuyfirvöld á Englandi heyra það núna fyrir helgina vegna lokaákvörðunar þeirra um leikjadagskrá Liverpool. Nú er staðan sú að Liverpool spilar við Manchester City sunnudaginn 27. nóvember og tveimur sólarhringum seinna mætir liðið Chelsea á Stamford Brigde. Sá leikur er í átta liða úrslitum Deildarbikarsins.

Lögreglan í Lundúnum vill ekki að leikurinn fari fram þetta kvöld því Tottenham og PAOK Salonika eiga þá að spila í Evrópudeildinni. Staða lögreglunnar er skiljanleg en það er frekar erfitt að átta sig á því hvers vegna ekki er hægt að spila leikinn á Stamford Bridge kvöldið eftir. Eins mun Manchester City hafa gefið kost á að færa leik sinn á Anfield Road fram en ekki fengið vegna ráðríkis sjónvarpsréttarhafa.
 
Kenny var ekki ánægður með þetta allt og sagði það svívirðu að krefjast þess af leikmönnum sínum að spila svona mikilvægan bikarleik aðeins tveimur sólarhringum eftir deildarleikinn. Hann hvatti svo stuðningsmenn Liverpool til að hugsa sig vel um áður en þeir eyddu peningum sínum í að kaupa miða á bikarleikinn því hann gæti þurft að tefla fram yngri leikmönnum. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan