| Heimir Eyvindarson

Gott að komast aftur í grennd við efstu liðin

Lucas Leiva segir að sigurinn gegn Úlfunum hafi verið gríðarlega mikilvægur fyrir framhaldið. Hann segir að liðið sé nú komið aftur á beinu brautina eftir smá hikst.

,,Það var mjög mikilvægt að vinna Úlfana, eftir það sem á undan hafði gengið í deildinni. Við töpuðum stórt fyrir Tottenham og það var erfitt að kyngja því. Við misstum tvo menn af velli og það gekk allt á afturfótunum hjá okkur. Þar áður töpuðum við fyrir Stoke í leik þar sem við spiluðum vel og vorum miklu betri."

,,Þessi tvö töp í röð höfðu áhrif á sjálfstraust okkar. Óhjákvæmilega. Við töluðum um það fyrir leikinn gegn Brighton að við yrðum að vinna þann leik til að koma okkur aftur á sporið og byggja upp sjálfstraustið fyrir leikinn gegn Úlfunum. Það gekk eftir. Við erum komnir í næstu umferð og fengum þrjú stig í gær. Ég held að við séum komnir aftur á beinu brautina."

,,Við spiluðum kannski ekkert rosalega vel í gær, en við sköpuðum okkur fullt af færum, sem er mjög jákvætt. Markvörður þeirra varði nokkrum sinnum ótrúlega vel og svo fékk tréverkið að kenna á því líka þannig að við sköpuðum greinilega nóg af sjénsum. Nú þurfum við bara að einbeita okkur að því að klára færin betur."

,,Aðalatriðið er samt að við fengum þrjú stig og erum nálægt efstu liðunum. Það gefur okkur góða von um framhaldið."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan