| Heimir Eyvindarson

Wenger er frábær

Síðast þegar Arsenal og Liverpool mættust í deildinni sló aðeins í brýnu milli Arsene Wenger og Kenny Dalglish. En sá pirringur er að baki, segir Dalglish.

Leikur Arsenal og Liverpool á Emirates á síðustu leiktíð verður lengi í minnum hafður. Einkum fyrir einhverjar æsilegustu lokamínútur sem sögur fara af í ensku deildinni, sem enduðu með því að Dirk Kuyt jafnaði metin fyrir Liverpool úr vítaspyrnu á 112. mínútu!

Eftir leikinn kom til orðaskaks milli framkvæmdastjóranna tveggja og sjónvarpsvélarnar sýndu að Wenger neitaði að taka í hönd kóngsins, sem lét Frakkann heyra það hressilega.

,,Við tókumst í hendur og sættumst eftir leikinn. Sjónvarpsvélarnar sýndu það ekki", segir Dalglish í viðtali við The Times.

,,Síðan áttum við gott spjall eftir leikinn og skildum í mesta bróðerni. Ég hef aldrei haft neitt á móti Arsenal og á ekki von á því að það breytist."

,,Ég ber mikla virðingu fyrir Wenger. Mér finnst hann frábær stjóri. Hann hefur reynst Arsenal mjög vel og komið félaginu í gegnum mörg erfiðleikatímabil. Hann er útsjónarsamur á leikmannamarkaði og hefur keypt og selt marga frábæra leikmenn. Petit, Overmars, Henry, Vieira og Anelka eru dæmi um leikmenn sem hann hefur selt á hárréttum tíma til þess að hámarka það fé sem félagið mögulega gat fengið fyrir þá. Það hefur verið mikils virði fyrir félagið."

,,Hann hefur látið leikmennina spila skemmtilegan bolta og hann hefur landað titlum fyrir félagið. Það er að vísu orðið dálítið síðan síðasti titill kom í hús hjá þeim en það finnst öllum gaman að sjá liðið spila. Það bera allir virðingu fyrir því hvernig bolta liðið spilar."

,,Þeir hafa selt Fabregas og eiga að auki í meiðslavandræðum, en það breytir því ekki að það verður erfitt að mæta þeim. Við verðum að leggja allt í sölurnar í dag til að fá eitthvað út úr þessum leik."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan