| Sf. Gutt

Tap gegn Tottenham

Liverpool mátti þola 0:2 tap fyrir Tottenham í síðasta heimaleiknum á þessu keppnistímabili. Um leið datt Liverpool úr Evrópusætinu sem liðið var komið í.

Eins vel og Liverpool byrjaði gegn Fulham í síðasta leik þá voru menn ótrúlega daufir frá upphafi og gestirnir notfærðu sér það með því að komast yfir á á 9. mínútu. Tottenham fékk þá horn frá hægri. Boltinn barst út úr teignum á Rafael Van der Vaart sem náði að skora með glæsilegu bogaskoti. 

Leikmenn Liverpool vöknuðu ekkert við þetta og lengi vel gerist ekkert uppi við mörkin. Liverpool fékk þó upplagt færi eftir 35 mínútur eða svo. Martin Skrtel sendi þá fyrir frá hægri á Andy Carroll en hann skallaði yfir á óskiljanlegan hátt. Á lokamínútu hálfleiksins fékk Liverpool aukaspyrnu utan vítateigs en skot Luis Suarez fór rétt framhjá. 

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn aðeins betur en fékk kjaftshögg á 56. mínútu. Dómarinn dæmdi þá vítaspyrnu sem var gersamlega út í hött. John Flanagan stjakaði við Steven Pienaar öxl í öxl og það ekki einu sinni inni í vítateignum! Luka Modric skoraði af öryggi úr vítinu og staðan orðin vond. 

Jonjo Shelvey kom inn á fyrir Jay Spearing á 64. mínútu og tveimur mínútum síðar átt hann frábært skot utan vítateigs sem fór rétt framhjá. Liverpool barist vel og leikmenn lögðu sig fram en það gekk bara ekki neitt og tap varð staðreynd.

Liverpool lék langt frá því sem það hefur verið að gera í síðustu leikjum og það olli auðvitað vonbrigðum. Tottenham hefur nú fimmta sætið í hendi sér og þar með aðgang að Evrópukeppni. Liverpool hefði getað náð þessu sæti með sigri í dag en það tókst ekki. Nú er að sjá hvað gerist í síðustu umferðinni eftir viku. 

Liverpool: Reina, Flanagan, Carragher, Skrtel, Johnson, Kuyt, Leiva, Spearing (Shelvey 64. mín.), Rodriguez (Ngog 75. mín.), Suarez og Carroll (Cole 88. mín.). Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Kyrgiakos, Poulsen og Robinson.

Gul spjöld: Luis Suarez og John Flanagan. 

Tottenham Hotspur: Cudicini, Kaboul, Dawson, King, Rose (Bassong 82. mín.), Lennon, Modric, Sandro, Pienaar (Kranjcar 90. mín.), Van der Vaart (Defoe 53. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Pletikosa, Pavlyuchenko, Livermore og Bostock.

Mörk Tottenham: Rafael Van der Vaart (9. mín.) og Luka Modric, víti, (56. mín.).
 
Gult spjald: Sandro.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 44.893.
 
Maður leiksins: John Flanagan. Unglingurinn barðist eins og ljón. Hann gaf ekki tommu eftir og þótt ekki gengi allt að óskum hjá honum þá var enginn bilbugur á piltinum. Vítið sem hann fékk á sig var rugl og ekki ber að saka hann um það.

Kenny Dalglish: Við spiluðum ekki eins vel og við getum og það voru vonbrigði því það hefði verið við hæfi að enda síðasta leikinn á Anfield vel því leikmennirnir hafa lagt hart að sér frá því í janúar. 


                                                                            Fróðleikur

- Liverpool tapaði sínum fyrsta heimaleik á þessu ári.

- Liverpool skoraði ekki í fyrsta sinn í deildinni á árinu.

- Tottenham vann sinn fyrsta deildarsigur á Anfield frá því 1993. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv

Hér eru myndir af heiðurshring leikmanna eftir leikinn.

Hér er viðtal við Kenny Dalglish af vefsíðu BBC.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan