| Grétar Magnússon

Sigur á Brúnni

Liverpool unnu verðskuldaðan sigur á meisturum Chelsea á Stamford Bridge.  Raul Meireles skoraði sitt fjórða mark í síðustu fimm leikjum og sá til þess að fyrsti leikur Fernando Torres fyrir nýtt félag endaði illa.

Kenny Dalglish gerði tvær breytingar á liðinu frá sigrinum gegn Stoke, Jamie Carragher byrjaði í fyrsta sinn síðan hann meiddist á öxl í nóvember og Maxi Rodriguez kom einnig inn.  Á bekkinn settust þeir Sotirios Kyrgiakos og Fabio Aurelio.

Minnstu munaði að Fernando Torres fengi óskabyrjun hjá Chelsea en slök sending Maxi Rodriguez þvert yfir miðjuna endaði beint í fótunum á Spánverjanum sem tók rás að marki.  Hann skaut að marki rétt fyrir utan vítateig en boltinn fór vel yfir.

Leikurinn var frekar rólegur heilt yfir og bæði lið virtust ekki tilbúin til að taka mikla áhættu.  Í sinni fyrstu hornspyrnu skapaðist hætta hjá heimamönnum þegar Branislav Ivanovic skallaði boltann framhjá markinu.  Skömmu síðar sendi Drogba boltann innfyrir á Fernando Torres og var hann kominn gegn Pepe Reina þegar hann lét skotið ríða af en þar var mættur Jamie Carragher og hann renndi sér fyrir boltann til að bægja hættunni frá.

Nokkrum mínútum síðar hefðu gestirnir átt að skora þegar góð sókn endaði með því að Raul Meireles sendi boltann til vinstri á Glen Johnson, hann lék inná teiginn en missti vald á boltanum.  Boltinn barst til Gerrard sem sendi hann umsvifalaust fyrir markið, á fjærstönginni beið auðvelt verkefni fyrir Maxi Rodriguez en einhverra hluta vegna skaut hann boltanum í þverslána.  Þar fór besta færi leiksins forgörðum.

Fyrri hálfleikur endaði svo á frekar skrautlegum nótum þegar fyrirgjöf frá Martin Kelly varð til þess að Petr Cech og Ivanovic urðu eitthvað ósáttir inní sínum eigin vítateig, minnstu munaði að til handalögmála kæmi en samherji þeirra náði að róa þá félaga niður.

Síðari hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri, heimamenn reyndu að brjóta vörn Liverpool á bak aftur en varð lítið ágengt og flestar tilraunir þeirra voru langskot sem hittu ekki á markið.  Glen Johnson reyndi líka fyrir sér með langskoti en gott skot hans fór ekki svo langt framhjá markstönginni.

Nicolas Anelka reyndi enn eitt langskotið og að þessu sinni virtust leikmenn Chelsea vera búnir að laga miðið aðeins því skot hans fór rétt framhjá, það sama gerðist hjá Michael Essien skömmu síðar er gott skot hans fór rétt yfir markið.

Á 69. mínútu kom svo eina mark leiksins.  Martin Kelly sendi langan sendingu fram á Steven Gerrard sem skeiðaði upp hægri kantinn.  Hann sendi boltann fyrir markið þar sem Dirk Kuyt reyndi að ná til boltans, hvorki Petr Cech né varnarmenn Chelsea náðu að hreinsa frá marki og á fjærstönginni kom Raul Meireles aðvífandi og hann gerði vel er hann skaut boltanum í markið með vinstri fæti.

Markinu var vel fagnað af Kenny Dalglish og myndavélunum var strax beint að Fernando Torres á varamannabekk Chelsea en Spánverjinn hafði verið tekinn útaf skömmu áður.

Eftir þetta mátti búast við stórsókn heimamanna en í raun varð það aldrei, næst komust þeir þegar Florent Malouda náði loksins skoti sem hitti á markrammann en þar var Pepe Reina að sjálfsögðu starfi sínu vaxinn og varði hann boltann vel.  Heimamenn vildu fá tvisvar sinnum fá vítaspyrnu, fyrst þegar boltinn virtist strjúkast í hönd Lucasar og rétt fyrir leikslok þegar Glen Johnson virtist keyra Ivanovic niður en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma vítaspyrnu.

Fabio Aurelio komst svo nálægt því að skora skömmu fyrir leikslok þegar hann plataði John Terry inní vítateig og náði svo skoti að marki sem Cech varði vel.

Þegar lokaflaut dómarans heyrðist braust út mikill fögnuður gestanna og því er ekki að leyna að leikmönnum og stuðningsmönnum leiddist örugglega ekki að skemma frumsýningarleik Fernando Torres í bláu treyjunni.

Chelsea:  Cech, Bosingwa (Luiz, 73. mín.), Terry, Ivanovic, Cole, Mikel (Malouda, 71. mín.), Essien, Lampard, Anelka, Drogba og Torres (Kalou, 66. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Turnbull, Ferreira, McEachran og Sala.

Gult spjald:  John Obi Mikel.

Liverpool:  Reina, Carragher, Skrtel, Agger, Kelly, Johnson, Leiva, Rodriguez (Aurelio, 75. mín.), Meireles (Poulsen, 84. mín.), Gerrard og Kuyt.  Ónotaðir varamenn:  Gulacsi, Kyrgiakos, Jovanovic, Ngog og Suarez.

Mark Liverpool:  Raul Meireles (69. mín.).

Gult spjald:  Lucas Leiva.

Áhorfendur á Stamford Bridge:  41.829.

Maður leiksins:  Lucas, Brasilíumaðurinn hefur staðið sig frábærlega á þessu tímabili og í annað sinn á leiktíðinni var hann maður leiksins gegn Chelsea.  Allt liðið stóð sig reyndar með stakri prýði en ef taka á einn leikmann út þá er það Lucas.

Kenny Dalglish:  ,,Við undirbjuggum okkur mjög vel.  Leikmennirnir voru stórkostlegir í nálgun sinni á leikinn og vilji þeirra til að vinna var mikill.  Eins og þetta félag hefur alltaf sagt, þá er mikilvægasta fólkið það sem er hjá Liverpool Football Club.  Það var ákkúrat þannig sem þeir nálguðust leikinn. Við höfum nú haldið hreinu í síðustu fjórum leikjum og náð í tólf stig.  Allir sem styðja Liverpool að einhverju leyti ættu að vera mjög ánægðir um þessar mundir.

Fróðleikur:

- Þetta var aðeins þriðji sigur Liverpool á Stamford Bridge í Úrvalsdeildinni.

- Síðast vannst sigur með sömu markatölu árið 2008, markið skoraði Xabi Alonso.

- Raul Meireles er eini núverandi leikmaður liðsins sem hefur skorað mark í deildinni á Stamford Bridge.

- Portúgalinn hefur nú skorað fjögur mörk í síðustu fimm leikjum í deildinni.

- Liverpool komst upp í 6. sæti deildarinnar með sigrinum.

- Pepe Reina hefur haldið markinu hreinu í síðustu fjórum leikjum í deildinni.

Hér má sjá myndir af vefsíðu BBC.

Hér má sjá myndir af vefsíðu Liverpoolfc.tv.

Hér er viðtal við Kenny Dalglish.

Hér er
 viðtal við Jamie Carragher.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan