| Sf. Gutt

Þrjátíu og ein sending og mark!

Fernando Torres innsiglaði sigur Liverpool gegn Úlfunum á laugardaginn þegar hann smellti boltanum upp í þaknetið af stuttu færi. Markið kom eftir mikinn og fágætan samleik leikmanna Liverpool. Þegar boltinn lá í markinu eftir skot Fernando Torres fóru menn að velta því fyrir sér hversu oft boltinn hafði gengið á milli manna áður en hann hafnaði í markinu. Þegar það hafði verið kannað kom í ljós að markið kom eftir hvorki né fleiri né færri en 31 sendingu án þess að nokkur leikmanna Wolves kæmist inn í spilið! Eftir mikið áhorf á Liverpool í gegnum árin man ég ekki eftir öðru eins marki.

Það hefði nú meira að segja þótt magnað á gullaldartíma Liverpool, þegar Kenny Dalglish lék, að skora eftir 31 sendingu! Markið gegn Úlfunum kom reyndar á síðustu mínútu leiksins þegar úrslitin voru ráðin en það dregur í sjálfu sér ekki úr því hversu magnaður samleikskaflinn var. Sjálfur fór ég að hugsa eftir svona 15 sendingar hvað væri í gangi og það yrði alveg magnað ef þessi samleikur myndi enda með marki!

- Markið kom eftir 31 sendingu.

- Dirk Kuyt kom boltanum á Fernando en kannski kom varnarmaður Wolves eitthvað við boltann þá.

- Átta leikmenn Liverpool komu við sögu í sókninni.

- Þeir Glen Johnson og Fabio Aurelio komu sex sinnum við boltann hvor.

- Lucas Leiva átti fimm sendingar.

- Aðrir sem komu við sögu í sókninni voru þeir Raul Meireles, Jonjo Shelvey, Dirk Kuyt, Daniel Agger og Jose Reina.

- Fernando Torres snerti boltann einu sinni og það var auðvitað mikilvægasta snertingin!

Hér má sjá myndskeið af markinu.

Hér má sjá uppdrátt af markinu af vefsíðu Daily Mail.

Kenny Dalglish sjálfum þótti markið merkilegt og ekki síður eftir að hann frétti af allri tölfræðinni sem fylgdi því.

,,Það er gaman að skora svona magnað mark. Einhver sendi mér sms til að láta mig vita að við hefðum verið með boltann í tvær mínútur. Mér finnst það alveg ótrúlega langur tími en það var frábært að ná 31 sendingu. Boltinn gekk fram völlinn, til baka og svo aftur fram. Við uppskárum svo mark. Það er stundum líka gott að skora ljót mörk. Það er ekki alveg hægt að reiða sig á svona mark, mark eins og Raul skoraði eða fyrsta markið sem kom líka eftir gott samspil."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan