| Sf. Gutt

Enn eitt tap Liverpool á útivelli

Liverpool tapaði fimmta útileik sínum í deildinni í röð í kvöld þegar liðið lá 2:1 fyrir Blackpool. Kenny Dalglish á mikið verk óunnið við að telja kjark í liðið sitt og koma einhverju lagi á það.

Liðsuppstilling Kenny kom nokkuð á óvart en hún virtist virka vel því Liverpool fékk óskabyrjun og komst yfir á 3. mínútu. Martin Kelly sendi góða sendingu fram hægri kantinn á Fernando Torres, sem lék inn á teiginn og þrumaði boltanum svo eldsnöggt upp í þaknetið. Mikið var fagnað og heimsmeistarinn brosti út að eyrum. Það hefur ekki sést nógu oft á þessari leiktíð.

Liverpool lék vel næstu mínúturnar en heimamenn jöfnuðu úr sinni fyrstu sókn á 12. mínútu. Raul Meireles missti boltann við miðjuna, David Vaughan náði honum og sendi fram á Gary Taylor-Fletcher. Vörn Liverpool brast, Gary lék á Daniel Agger og skoraði framhjá Jose við vítapunktinn. Þess má geta að Gary er mikill stuðningsmaður Liverpool og mun hafa farið til Istanbúl um árið! Rétt á eftir fékk JD Campbell gott skallafæri í vítateginum en skalli hans fór rétt framhjá. Reyndar gerðist fátt fram að leikhléi en það var augljóst að útivallarálögin voru búin að láta á sér kræla. Gary hefði getað skorað aftur seint í hálfleiknum þegar Jose átti misheppnað útspark. Hann fékk boltann úti við hliðarlínu hægra megin en náði ekki að hitta autt markið. Það var því jafnt á komið í hálfleik. 

Síðari hálfleikur var fjörugur og bæði lið léku sóttu við hvert tækifæri. Mátti greina heldur meiri sóknarhug hjá Liverpool en í síðustu útileikjum. Charlie Adams ógnaði fyrstur eftir um tíu mínútur en Jose varði vel fast skot hans. Rétt á eftir varði Jose aftur vel þegar hann sló skot frá David yfir. Á 60. mínútu sendi Martin fyrir. Boltinn barst á Fernando sem kom sér í skotstöðu en Richard Kingson varði skot hans. Fimm mínútum seinna fékk Raul boltann inn í vítateignum en skot hans fór rétt framhjá. Rétt á eftir átti Dirk Kuyt skot utan vítateigs sem Richard náði að slá framhjá í horn.

Batamerki var að sjá á leik Liverpool á þessu tímapunkti en á 69. mínútu dundi ógæfan yfir. Sending kom inn í vítateiginn frá hægri. Ian Evatt stökk hæst og skallaði aftur fyrir markið á DJ Campbell sem henti sér fram og skallaði óvaldaður í mark frá markteig. Enn ein varnarmistökin hjá Liverpool og útivallarmartröðin heldur enn áfram. Liverpool náði reyndar næstum að jafna mínútu seinna en Raul skallaði rétt yfir eftir sendingu frá Fernando.
 
Það sem eftir lifði leiks var Liverpool aldrei nærri því að jafna og Blackpool ógnaði alltaf með hröðum sóknum. Undarlegt atvik gerðist þegar tíu mínútur voru eftir þegar varnarmaður Blackpool handlék boltann. En í stað þess að dæma víti þá dæmdi dómarinn aukaspyrnu á Fernando sem stóð rétt hjá varnarmanninn en ekki var að sjá að hann hefði stuggað við honum. Það var nú ekki hægt að sjá annað en Liverpool hefði átt að fá víti. En fimmta útitap liðsins, í deildinni, varð staðreynd og útivallardraugurinn gengur enn ljósum logum þó Kenny Dalglish sé kominn til starfa.

Blackpool: Kingson, Crainey, Eardley, Evatt, Cathcart, Vaughan, Grandin (Phillips 64. mín .), Adam, Taylor-Fletcher (Baptiste 84. mín.), Varney (Southern 83. mín.) og Campbell. Ónotaðir varamenn: Rachubka, Sylvestre, Ormerod og Euell.

Mörk Blackpool: Gary Taylor-Fletcher (12. mín.) og DJ Campbell (69. mín.).

Gult spjald: Charlie Adam. 

Liverpool: Reina, Johnson, Agger, Kelly Skrtel, Meireles, Leiva, Poulsen (Ngog 85. mín.), Torres, Jovanovic og Kuyt (Shelvey 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Konchesky, Kyrgiakos, Wilson og Rodriguez.

Mark Liverpool: Fernando Torres (3. mín.).

Gul spjöld: Milan Jovanovic, Martin Kelly og Fernando Torros.

Áhorfendur á Bloomfield Road: 16.089.
 
Maður leiksins: Jose Reina. Þrátt fyrir að fá á sig tvö mörk þá stóð Jose sig mjög vel. Hann varði til dæmis glæsilega í tvígang og verður ekki sakaður um mörkin.

Kenny Dalglish: Það eru nokkur atriði sem getum lagað. Ef vandmálin eru hjá manni sjálfum er hægt að bæta úr en það er erfiðara að eiga við vandann ef hann er út af því að hitt liðið er miklu betra. Það er mikil áskorun framundan en það er líka ekki oft sem maður tekur að sér starf sem ekki felur í sér miklar áskoranir.

                                                                   Fróðleikur

- Liverpool tapaði fimmta útileik sínum í röð í deildinni. 

- Liverpool hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm deildarleikjum sínum.

- Fernando Torres skoraði sjöunda mark sitt á leiktíðinni.

- Liverpool hefur ekki unnið í síðustu fimm leikjum gegn Blackpool.

- Kenny Dalglish stjórnaði Liverpool síðast í deildarleik fyrir 7278 dögum.
 




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan