| Heimir Eyvindarson

Blaðamannafundi Roy aflýst

Blaðamannafundi vegna bikarleiksins við Manchester United sem halda átti í dag var aflýst rétt fyrir hádegi. Engar skýringar hafa enn verið gefnar.

Roy Hodgson átti að sitja fyrir svörum á venjubundnum blaðamannafundi vegna bikarleiksins klukkan hálf tvö í dag, en klukkan 11.45 kom tilkynning frá Liverpool þess efnis að Roy Hodgson myndi ekki mæta á fundinn. Þess í stað mun hann ræða við opinbera heimasíðu félagsins síðar í dag.

Þetta þykir renna stoðum undir þann orðróm að dagar Roy Hodgson á Anfield séu í raun taldir, en heimildir úr herbúðum Liverpool herma að búið sé að ganga frá starfslokum hans og hann muni taka föggur sínar að loknum leiknum við Manchester United á sunnudag.

Hvort eitthvað er hæft í þessum sögusögnum skal ósagt látið en víst er að mikill hamagangur er í kringum Roy Hodgson þessa dagana og aldrei hefur jafn mikil óánægja ríkt með nokkurn stjóra Liverpool. Síðast í dag steig Phil Thompson fyrrum fyrirliði liðsins fram og sagði að Roy yrði hreinlega að víkja.

Ýmsir hafa þó einnig tekið upp hanskann fyrir Roy Hodgson. Fyrrum Liverpool leikmennirnir Kevin Keegan, John Barnes og Steve McManaman létu hafa eftir sér í gær að fráleitt væri að kenna Roy einum um ástandið. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan