| Heimir Eyvindarson

Þetta er allt að koma

Dirk Kuyt vill meina að Liverpool liðið sé þrátt fyrir allt á réttri leið og það megi sjá breytingu til batnaðar á liðinu.

Kuyt var í byrjunarliði Liverpool í fyrsta sinn í nokkurn tíma, eða allt frá því að hann meiddist á öxl með hollenska landsliðinu. Hann er sannfærður um það að öll sú vinna sem leikmenn og þjálfaralið Liverpool hafi lagt á sig á undanförnum vikum muni brátt fara að skila sér í betri árangri á vellinum.

,,Ef allt hefði verið eðlilegt og við hefðum verið í okkar eðlilega formi þá hefðum við unnið Sunderland", segir Kuyt í viðtali við Liverpool Daily Post. ,,Það eru allir á fullu við að reyna að bæta sig og reyna að stilla strengina saman. Það er bara tímaspursmál hvenær þetta smellur hjá okkur. Því miður tókst okkur ekki að landa sigri á laugardaginn, en þetta er allt að koma. Ég er sannfærður um það."

,,Við byrjuðum leikinn gegn Sunderland vel. Við skoruðum að vísu frekar undarlegt mark, en við spiluðum vel. Síðan fengum við á okkur óþarfa víti og við það duttum við úr takti við leikinn. Þegar þeir síðan skoruðu eftir góða sókn þá snerist þetta bara um það hjá okkur að komast aftur inn í leikinn. Okkur tókst að jafna og áttum ágætis færi í lokin til þess að gera út um leikinn þannig að það var margt jákvætt við okkar leik."

,,Ég sat á bekknum á móti Manchester United um daginn og mér fannst við eiga skilið að ná stigi úr þeim leik eftir að við duttum í gírinn í seinni hálfleik. Það gerðist ekki. Hlutirnir duttu ekki heldur með okkur á laugardaginn. Svona er þetta þessa stundina. Þegar maður spilar fyrir Liverpool vill maður alltaf vinna og maður vill alltaf berjast um titlana. En eins og staðan er í dag þá verðum við einfaldlega að sýna þolinmæði. Við verðum að halda áfram að vinna allir sem einn að því að láta þetta smella. Það mun gerast. Við vitum að við höfum hæfileikana."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan