| Sf. Gutt

Góður sigur Liverpool á Stjörnunni

Liverpool hóf riðlakeppni Evrópudeildarinnar mjög vel með því að skjóta Stjörnuna frá Búkarest niður með 4:1 sigri á Anfield Road. Joe Cole skoraði sneggsta mark á seinni árum. Liverpool lék mun betur en um helgina og það var gott að sjá nokkur mörk. 

Roy Hodgson breytti liði sínu töluvert frá því í Birmingham og yngri menn fengu tækifæri. Joe Cole kom í byrjunarliðið og nú er hann laus úr löngu leikbanni. Leikurinn var varla hafinn þegar Joe var búinn að senda boltann í markið. Octavian Abrudan hugðist gefa aftur á markmann sinn vinstra megin en sendingin var of laus, Joe þakkaði gott boð og sendi boltann út í hægra hornið. Fyrsta mark hans fyrir Liverpool og hann gladdist mjög. Menn könnuðu svo hvað klukkunni liði og 26 sekúndur voru taldar! Það ótrúlegasta var að Rúmenarnir byrjuðu með boltann!

Á næstu mínútum voru leikmenn Liverpool mjög snarpir og áhorfendur bjuggust við næsta marki hvað úr hverju en það var öðru nær því gestirnir jöfnuðu óvænt á 13. mínútu. Bogdan Stancu sendi þá boltann fram á Cristian Tanase. Hann fékk boltann rétt utan vítateigs Liverpool þar sem hann stakk sér framhjá tveimur varnarmönnum og inn í teiginn þar sem hann skaut boltanum laglega framhjá Jose Reina sem kom engum vörnum við. Laglega gert og í kjölfarið mátti greina að leikmenn Liverpool voru slegnir út af laginu. Þeir misstu taktinn og Stjörnumenn færðu sig upp á skaftið. Leikurinn var tíðindalítill fram að leikhléi og hvorugt liðið kom sér í gott færi. Það var því jafnt 1:1 í hálfleik.
 
Leikmenn Liverpool virtust hafa tekið sig á í leikhléinu og hófu síðari hálfleikinn vel. Bætingin gaf góða raun og á 56. mínútu var dæmt víti á Stjörnuna þegar Pantelis Kapetanos reif í landa sinn Sotirios Kyrgiakos eftir horn. Eitthvað var nú Sotirios léttur því hann tókst á loft! Ekki var alveg sjálfgefið hver myndi taka vítið en David Ngog tók verkefnið að sér. Frakkinn var öryggið uppmálað og skoraði neðst í bláhornið vinstra megin en markmaður Steaua henti sér í hitt hornið.
 
Eftir þetta hafði Liverpool öll ráð rúmenska liðsins í höndum sér. Eftir rúmlega klukkustund átti Raul Meireles fast skot utan teigs sem Ciprian Tatarusanu varði vel. Steaua var varla með en Liverpool skapaði sér ekki opin færi. Laglegar sóknir sáust þó af og til. Þegar um stundarfjórðungur var eftir fékk Stjarnan loks sókn. Cristian lék laglega á Sotirios rétt utan vítateigs og komst í þokkalega skotstöðu en skotið var sem betur fer hættulaust. Þetta var í fyrsta og síðasta sinn í síðari hálfleik sem mark Liverpool var í einhverri hættu.
 
Lucas Leiva skipti við Ryan Babel á 78. mínútu og það tók hann aðeins þrjár mínútur að skora. Brasilíumaðurinn náði boltanum eftir að varnarmanni mistókst að hreinsa og þrykkti honum, svo varla var hægt að festa augu á, í markið af rúmlega tuttugu metra færi. Stórglæsilegt mark og sannarlega úr óvæntri átt. 

Litlu síðar vildu Rúmenar fá víti eftir að leikmaður þeirra féll eftir viðskipti við Daniel Agger en ekkert var dæmt. Liverpool bætti svo fjórða markinu við á lokamínútunni. Jay Spearing, sem lék mjög vel, sendi stutt á David. Hann fékk boltann rétt við vítateiginn, kom sér framhjá tveimur sem voru til varnar og skoraði neðst í vinstra hornið. Vel gert hjá Frakkanum og góður endir á góðum sigri. Það gleðilegasta við hann var þó að fjögur mörk skyldu bætast við markareikninginn sem hefur verið heldur rýr það sem af er valdatíðar Roy Hodgson.

Liverpool: Reina, Kelly, Kyrgiakos, Agger, Konchesky, Spearing, Meireles, Rodriguez (Pacheco 85. mín.), Cole (Eccleston 88. mín.), Babel (Leiva 78. mín.) og Ngog. Ónotaðir varamenn: Jones, Johnson, Carragher og Shelvey.
 
Mörk Liverpool: Joe Cole (26 sek.), David Ngog (56 mín. ,víti, og 90. mín.) og Lucas Leiva (81. mín.).

Gult spjald: Maxi Rodriguez.

Steaua Bucharest: Tatarusanu, Emeghara (Nicolita 20. mín.), Abrudan, Geraldo, Latovlevici, Radut (Surdu 73. mín.), Angelov (Eder 52. mín.), Bicfalvi, Tanase, Stancu og Kapetanos. Ónotaðir varamenn: Lungu, Gardos, Gomes og Apostol.

Mark Steaua Bucharest: Cristian Tanase (13. mín.). 

Gul spjöld: Abrudan, Kapetanos og Eder. 

Áhorfendur á Anfield Road: 25.605.

Maður leiksins: Jay Spearing. Þessi harðskeytti strákur lék mjög vel á miðjunni. Hann gerði það sem þurfti á einfaldan hátt og endaði svo á því að leggja upp síðasta markið í leiknum. Þetta var tíundi leikur hans með Liverpool og sá besti. Jay er vel brúklegur leikmaður og hann hefur unnið sér inn rétt á fleiri leikjum.   

Roy Hodgson: Leikmennirnir sem komu inn í liðið stóðu sig vel og við náðum góðum úrslitum. En það hefði verið rétt að breyta liðinu þó svo að ekki hefði tekist vel til. Ég nýt þessa sigurs núna og á morgun fer ég að hugsa um helgina. 

                                                                              Fróðleikur.

- Roy Hodgson varð fyrstur framkvæmdastjóra Liverpool til að vinna sína fyrstu fimm Evrópuleiki. 

- Joe Cole skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool. 

- Markið hans var það sneggsta í Evrópusögu Liverpool og kom eftir aðeins 26 sekúndur. 

- David Ngog bætti tveimur mörkum í safnið og hefur nú skorað sex mörk á keppnistímabilinu.

- Lucas Leiva skoraði í fyrsta sinn á leiktíðinni.

- Hann lék sinn 130. leik og markið var hans sjötta fyrir félagið.

- Jay Spearing lék sinn tíunda leik.

- Jose Reina var fyrirliði Liverpool í fyrsta sinn.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan