| Sf. Gutt

Allt í óvissu!!!

Núna eftir síðasta heimleik Liverpool á þessari þrautagöngu sem þessi leiktíð hefur verið er ljóst að mikil óvissa er í herbúðum félagsins okkar. Verður Rafael Benítez enn framkvæmdastjóri Liverpool þegar næsta keppnistímabil hefst? Líklega er þetta stærsta spurningin sem stuðningsmenn Liverpool spyrja sig þessa dagana. Rafael var líka spurður út í málið eftir tapleik dagsins. 

,,Ég vil tala um knattspyrnu. Framkvæmdastjórar geta ekki alltaf verið að tala um einhverjar getgátur. Ég á ennþá fjögur ár eftir af samningi mínum hérna. Við skulum sjá hvað gerist. Ég hef í gegnum tíðina sýnt félaginu og stuðningsmönnunum tryggð. Við verðum að halda áfram að vinna hörðum höndum. Það munum við gera fram að lokadegi en við vitum ekki hvenær hann rennur upp."

Fyrir leikinn við Chelsea vék Rafael Benítez að því að forráðamenn Liverpool hefðu ekki staðið við allt sitt þegar hann gerði fimm ára samning við félagið á síðasta ári.

,,Ég ákvað að framlengja samninginn minn því liðshópurinn var sterkur og það var talað um að peningar yrðu til taks til að styrkja hann en svo breyttist staðan. Þetta hefur verið slæmt keppnistímabili og vonandi eiga hlutirnir eftir að breytast í framtíðinni. Í bili get ég þó ekki talað um framtíðina því ég veit ekki hvað er í gangi. Ég fór frá Valencia á sínum tíma vegna þess að aðstæður breyttust."

,,Ég ákvað ekki að vera áfram hjá Liverpool út af peningum og ég neitaði háum tilboðum sem ég fékk annars staðar frá. Ég ákvað að vera áfram hjá Liverpool vegna þess að vilyrði voru gefin um ákveðna hluti en nú eru staðan önnur. Leikmennirnir eru líka gramir. Ég veit hvernig þeim líður því ég er búinn að vera með þeim og tala við þá alla leiktíðina. Það má öllum ljóst vera að þetta keppnistímabil hefur ekki verið gott en við vitum ástæðuna og hverju þarf að breyta."

Eftir leikinn í dag gengu Rafa, leikmenn hans og aðstoðarmenn heiðurshring eins og jafnan er gert eftir síðasta heimaleik á hverju keppnistímabili. Kveðjustundin var daufleg svo ekki sé fastara að orði kveðið. Varla sást bros á nokkrum manni og skyldi engan undra en skyldi Spánverjinn hafa verið að kveðja Anfield í síðasta sinn?

Hér má sjá kveðjustundina á Anfield í dag.












TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan