| Grétar Magnússon

Stórsigur í Burnley

Liverpool unnu í dag góðan 4-0 sigur á Burnley sem varð til þess að Burnley féll um deild.  Markalaust var í hálfleik en fyrirliðinn kom sínum mönnum á bragðið með fyrstu tveimur mörkunum.

Rafa Benítez gerði fjórar breytingar á liðinu sem byrjaði leikinn gegn Atletico Madrid.  Spánverjinn ungi, Daniel Ayala byrjaði í vörninni með Jamie Carragher í stað Sotirios Kyrgiakos og þeir Alberto Aquilani, Ryan Babel og Maxi Rodriguez komu inn í stað þeirra Lucas Leiva, Yossi Benayoun og David Ngog.

Leikurinn byrjaði rólega og ekki virtust heimamenn vera að berjast fyrir lífi sínu í deildinni en með sigri hefðu þeir haldið möguleikanum á áframhaldandi veru sinni í deild þeirra bestu.  Ryan Babel átti fyrsta markverða tækifæri leiksins er næstum 20 mínútur voru liðnar af leiknum er hann skaut að marki á vítateigslínu, skotið fór hinsvegar framhjá.

Burnley menn fengu svo færi stuttu síðar er Danny Fox sendi boltann fyrir markið þar sem Steven Fletcher skallaði rétt yfir markið.  Steven Gerrard átti skot að marki sem Brian Jensen varði.

Heimamenn heimtuðu svo vítaspyrnu þegar boltinn virtist fara í hönd Glen Johnson en í endursýningu mátti sjá að boltinn fór í bringuna á honum og þaðan í hnéð þannig að dómari leiksins gerði rétt í því að dæma ekki.  Burnley menn færðu sig uppá skaftið eftir því sem leið á hálfleikinn og Jamie Carragher þurfti að leggja sig allan fram til að bjarga skoti frá Fletcher.  Pepe Reina varði svo vel skalla frá Jack Cork, áhorfendur á bandi Burnley héldu jafnvel að það stefndi í að liðið gæti endurtekið frækinn sigur frá því í haust þegar liðið vann 1-0 sigur á Manchester United.

Ryan Babel fékk svo ágætt tækifæri er hann virtist vera að sleppa einn í gegn en hann lét Brian Jensen ná boltanum af sér áður en hætta skapaðist.  Ekkert fleira markvert gerðist og því var staðan markalaus þegar gengið var til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur byrjaði með því að heimamenn vildu aftur fá vítaspyrnu er Daniel Agger varðist en í endursýningu mátti sjá að boltinn fór ekki í hönd Danans.  Dirk Kuyt þurfti svo að fara af velli á 48. mínútu vegna meiðsla og inná kom Yossi Benayoun.  Fjórum mínútum síðar lá boltinn í marki Burnley manna.  Steven Gerrard fékk boltann um 20 metra frá marki og eftir að hafa leikið aðeins nær skaut hann föstu skoti.  Boltinn hafði viðkomu í Leon Cort og breytti algjörlega um stefnu, fór í nærhornið og Brian Jensen kom engum vörnum við.  Fyrirliðinn fagnaði markinu vel og var greinilega ánægður með að hafa brotið ísinn.

Sjö mínútum síðar var fyrirliðinn búinn að skora aftur og í þetta sinn hafði boltinn enga viðkomu í varnarmanni og skotið var glæsilegt!  Alberto Aquilani lék fram völlinn en hrasaði rétt utan vítateigsins. Hann náði þó liggjandi að koma boltanum út til Gerrard sem skaut viðstöðulausu skoti og söng knötturinn í netinu án þess að Jensen kæmi vörnum við.  Sannarlega glæsilegasta mark Gerrard á tímabilinu og hans tólfta í öllum keppnum.

Eftir þetta höfðu gestirnir öll völd á vellinum en Burnley komust þó næst því að skora er Fletcher skaut í stöng eftir að hafa gert vel við sendingu sem barst innfyrir vörnina.

Á 74. mínútu sendi svo Alberto Aquilani glæsilega sendingu innfyrir vörnina eftir fínt samspil.  Maxi Rodriguez tók við boltanum og sendi hann rakleiðis í netið, hans fyrsta mark fyrir Liverpool og vel að því staðið, staðan orðin 3-0 og ljóst að Burnley væru fallnir niður um deild.  Fjórum mínútum síðar kom svo Lucas Leiva inná fyrir Daniel Agger og tveim mínútum síðar fékk Steven Gerrard að hvíla sig er Daniel Pacheco kom inná.

Allt stefndi í 3-0 sigur en þegar komið var framyfir venjulegan leiktíma sendi Lucas boltann inn fyrir vörn Burnley manna og Ryan Babel tók á rás.  Hollendingurinn var samsíða varnarmönnum og því ekki rangstæður, hann var kominn einn gegn Jensen og þó svo að Daninn stóri hefði hönd á boltanum rúllaði boltinn yfir línuna og 4-0 sigur staðreynd.  Heimamenn tóku miðju og flautað var til leiksloka nánast um leið.

Draumurinn um fjórða sætið er því ekki dauður úr öllum æðum enn og spennan magnast í baráttunni um fjórða sætið.

Burnley:  Jensen, Duff, Cort, Fox, Mears, Cork, Alexander (Blake, 64. mín.), Elliott, Nugent (Thompson 77. mín.), Paterson (Eagles, 71. mín.), Fletcher.  Ónotaðir varamenn:  Weaver, Caldwell, Bikey og Rodriguez.

Gul spjöld:  Jack Cork og Michael Duff.

Liverpool:  Reina, Johnson, Carragher, Ayala, Agger (Lucas, 78. mín.), Mascherano, Gerrard (Pacheco, 82. mín.), Babel, Rodriguez, Aquilani, Kuyt (Benayoun, 48. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Cavalieri, Degen, Kyrgiakos og El Zhar.

Mörk Liverpool:  Steven Gerrard (52. og 59. mín.), Maxi Rodriguez (74. mín.) og Ryan Babel (90. mín.).

Gult spjald: Steven Gerrard.

Áhorfendur á Turf Moor:  21.553.

Maður leiksins:  Steven Gerrard.  Fyrirliðinn hefur játað það sjálfur að hann hafi ekki spilað vel á tímabilinu.  Í þessum leik mátti sjá tilþrif frá honum sem minntu á hvers hann er megnugur.  Seinna mark hans í leiknum var einstaklega glæsilegt og því miður hafa slík langskot ekki sést oft frá honum á þessu tímabili.

Rafael Benítez:  ,,Annað markið var svona mark sem Steven getur skorað - frábært skot.  Hann hefur gæðin og kraftin, ég er mjög ánægður fyrir hans hönd og þetta eru góðar fréttir fyrir okkur.  Eftir að hafa skorað fjögur mörk á útivelli og haldið hreinu eykst sjálfstraustið.  Ég hef trú á því að við getum unnið Atletico Madrid og komist í úrslitaleikinn í Evrópudeildinni.  Og ef við náum í þrjú stig í báðum leikjunum sem eftir eru á tímabilinu þá eigum við kannski möguleika á fjórða sætinu."

Fróðleikur:

- Steven Gerrard er nú kominn með níu mörk í Úrvalsdeildinni og er hann næst markahæstur þar ásamt Dirk Kuyt.

- Steven hefur alls skorað 12 mörk í öllum keppnum á leiktíðinni.

- Maxi Rodriguez skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið.  Hann hefur nú spilað 16 leiki, alla í Úrvalsdeild.

- Ryan Babel skoraði sitt sjötta mark sitt á leiktíðinni. Þetta var 20. mark hans fyrir Liverpool.

- Þetta var fyrsti útisigur Liverpool á árinu 2010.

- Pepe Reina hélt markinu hreinu í 15. sinn í Úrvalsdeildinni.

- Pepe hefur nú ekki fengið á sig mark í þremur leikjum í röð í deildinni.

- Aðeins kraftaverk getur bjargað Burnley frá falli en stærðfræðilega á liðið ennþá örlitla möguleika á því að bjarga sér.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan