| Sf. Gutt

Ekki fallegasta markið!

Mikið hefur verið fjallað um hið snilldarlega mark sem Fernando Torres skoraði gegn Sunderland á sunnudaginn.

Markinu var svona lýst í leikskýrslu á Liverpool.is. ,,Tveimur mínútum síðar sendi Jose Reina boltann langt fram á landa sinn Fernando Torres. Hann fékk boltann vinstra megin við vítateiginn. Tveir gestir voru til varnar en Fernando lék inn að vítateigslínunni áður en hann sneri boltann upp í vinkilinn fjær, fyrir framan The Kop, með hnitmiðuðu skoti! Stórkostlegt mark og allt sprakk á Anfield. Mörg glæsimörkin hefur þessi meistari skorað en þetta fer í flokk þeirra allra bestu. Sannkallað meistaraverk!"
 
Fernando telur þó markið ekki það fallegasta sem hann hefur skorað á ferli sínum.

,,Ég held að þetta sé ekki fallegasta markið sem ég hef skorað. Markið var vissulega fallegt en ég held að ég hafi skorað glæsilegri mörk og ég vona að ég eigi eftir að skora ennþá fallegri mörk."

Liverpool lék frábærlega gegn Sunderland og Fernando Torres telur að liðið geti komist hærra í deildinni ef það heldur áfram á sömu braut.

,,Við vitum að við getum lagt hvaða lið sem er að velli ef við spilum svona. Við eigum sex leiki eftir og þurfum að halda áfram að spila svona. Við vitum að allir okkar leikir verða að vinnast og við höfum trú á því að það sé mögulegt. Þetta verður erfitt en við höfum trú á okkur. Svo erum við líka enn með í Evrópudeildinni og það væri gaman ef við gætum unnið titil."

Fernando Torres hefur verið mikið frá á þessu keppnistímabili. Hann meiddist á hné í byrjun árs en honum hafa ekki haldið nein bönd eftir að hann kom til baka eftir þau meiðsli. Hann hefur nú skorað 20 mörk í aðeins 29 leikjum á þessari sparktíð.
 
,,Það er ekki mikið fyrir leikmann Liverpool að hafa spilað færri en 30 leiki en ég er kominn aftur til leiks og farinn að skora mörk. Núna vil ég einbeita mér að því að hjálpa liðinu. Það skiptir miklu fyrir mig að ég sé að vera kominn í mitt besta form. Mér finnst ég vera styrkur og hafa úthald. Við getum gert góða hluti hjá Liverpool til loka keppnistímabilsins ef ég næ að halda áfram að skora mörk."

Hér má lesa um vonir og væntingar Fernando Torres fyrir þetta keppnistímabil.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan