| Heimir Eyvindarson

Carragher neitar að gefast upp

Jamie Carragher veit að staða Liverpool er ekki ýkja vænleg eftir tapið gegn Man U. í gær, en hann neitar samt að viðurkenna að 4. sætið sé úr sögunni.

Liverpool er nú í 6. sæti, fjórum stigum á eftir Tottenham sem er í 4. sætinu þessa stundina og tveimur stigum á eftir Manchester City sem er í því 5. Man. City á auk þess tvo leiki til góða á okkar menn. Aston Villa, sem er í 7. sæti, á einnig tvo leiki til góða á Liverpool og er einungis stigi á eftir okkar mönnum þannig að staðan er ekkert sérlega vænleg.

Jamie Carragher gefst þó aldrei upp fyrr en í fulla hnefana og í samtali við Liverpool Echo í dag segist hann enn vongóður um að takmarkið náist.

,,Það er ekkert annað að gera en að vinna það sem eftir er. Leikurinn í gær var sá erfiðasti á dagskránni hjá okkur til vors. Við töpuðum honum, en við vorum alls ekki verri aðilinn í leiknum. Það má ekki gleyma því að við spiluðum tvo leiki í vikunni en þeir engan. Það eru forréttindi að mæta úthvíldir í svona leik."

,,Það er alltaf svekkjandi að tapa, sérstaklega þegar maður á það ekki skilið. Mér fannst við síst verri en þeir í leiknum, enda sköpuðu þeir sér ekki mörg færi. Nú verðum við bara að þétta okkar leik enn betur og taka öll stig sem í boði eru út tímabilið."

,,Við vitum vel að við höfum ekki staðið okkur vel á þessu tímabili og við höfum líka fengið mikla gagnrýni. Þegar maður spilar fyrir lið eins og Liverpool þá verður maður að geta tekið gagnrýni, það er ætlast til mikils af manni. Þannig hefur það alltaf verið hjá Liverpool og þannig verður það áfram. Leikmannahópurinn hefur af einhverjum ástæðum ekki verið nógu sterkur í vetur, við höfum verið í allskonar vandræðum, en vonandi tekst okkur að hrista okkur saman fyrir lokasprettinn."

Stóra málið eftir leikinn í gær er að sjálfsögðu vítaspyrnan sem Howard Webb dæmdi á Mascherano á 13. mínútu, fyrir brot sem virtist eiga sér stað utan teigs. Stjórar félaganna eru auðvitað ósammála um það atvik. Benítez segir að þetta hefði aldrei átt að vera víti, en Alex Ferguson skilur ekkert í því af hverju Mascherano var ekki rekinn út af fyrir að ræna Manchester United upplögðu marktækifæri.

,,Þetta brot verðskuldaði náttúrlega aldrei rautt spjald", segir Carragher. Brotið átti sér stað fyrir utan teigs og ég held að ég hefði náð að stoppa hann (Valencia) í tæka tíð! Þetta var bara aukaspyrna, ekkert annað. Pepe (Reina) var síðan óheppinn í vítinu. Hann varði það vel en boltinn þurfti endilega að berast til Rooney aftur."  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan